Enski boltinn

Lampard: Verður ekki Mourinho að kenna heldur leikmönnunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho.
José Mourinho. Vísir/getty
Lið Manchester United í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið sinn skerf af gagnrýni undanfarnar vikur enda liðið ekki verið að spila skemmtilegasta boltann og er, eins og önnur lið deildarinnar, að missa af Manchester City í titilbaráttunni.

United er engu að síður í baráttunni um enska meistaratitilinn en liðið er með 23 stig líkt og Tottenham og er fyrir ofan Chelsea, Liverpool og Arsenal.

Frank Lampard, fyrrverandi leikmaður Chelsea, segir að það sé undir leikmönnunum komið að vinna ensku úrvalsdeildina en takist það ekki verður það ekki José Mourinho að kenna, hans gamla knattspyrnustjóra.

„Mourinho er stjóri sem vill vinna og hann hefur sína aðferð til þess. Hún er öðruvísi en aðferð Pep Guardiola og Antonio Conte. Ef Manchester United vinnur ekki ensku úrvalsdeildina verður það vegna þess að leikmennirnir eru ekki nógu góðir,“ segir Lampard.

„United er eitt af bestu liðunum en kannski eru önnur lið betri. Þetta verður klárlega ekki stjóranum að kenna. Það er frekar mín tilfinning að verði United í baráttunni undir lok leiktíðar verður það Mourinho að þakka,“ segir Frank Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×