Innlent

Þingflokkur Vinstri grænna fundar í morgunsárið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætir í þinghúsið núna fyrir skömmu. Hún vildi ekkert tjá sig um efni fundarins við fjölmiðlamenn.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætir í þinghúsið núna fyrir skömmu. Hún vildi ekkert tjá sig um efni fundarins við fjölmiðlamenn. vísir/eyþór

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er nú að koma saman til fundar í þinghúsinu. Eftir því sem fréttastofa kemst næst átti fundurinn að hefjast klukkan 8:30 en þingmenn flokksins hafa verið að tínast inn í Alþingishúsið á seinustu mínútum.
 
Ekki fást upplýsingar um hvað verður rætt á fundinum en fastlega má gera ráð fyrir að farið verði yfir stöðuna í óformlegum þreifingum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf.

Undanfarna daga eða allt frá því að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skilaði stjórnarmyndunarumboðinu til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á mánudag hafa flokkarnir þrír rætt það óformlega sín á milli hvort grundvöllur sé fyrir ríkisstjórnarsamstarfi þeirra.

Þá hafa fleiri flokkar verið í óformlegum viðræðum sín á milli einnig en líklegast er talið að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn fari í formlegar viðræður.

Spurningin er því hvort að forsetinn boði einhvern flokksleiðtoga til sín á Bessastaði í dag en Katrín og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gera bæði tilkall til þess að leiða viðræðurnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.