Innlent

Katrín segir líkur á góðum samningi

Sveinn Arnarsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, ganga út í kvöldsvalann eftir langan fund þingflokksins þar sem rætt var um hvort fara eigi í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk um myndun ríkisstjórnar. Enginn botn fékkst í málið sem Katrín segir að verði rætt áfram í dag.
Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, ganga út í kvöldsvalann eftir langan fund þingflokksins þar sem rætt var um hvort fara eigi í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk um myndun ríkisstjórnar. Enginn botn fékkst í málið sem Katrín segir að verði rætt áfram í dag. vísir/stefán

Þingflokkur VG komst ekki að niðurstöðu á löngum fundi í gær um það hvort hefja ætti formlegar viðræður við Framsókn og Sjálfstæðisflokk um myndun ríkisstjórnar. Fundinum verður framhaldið klukkan eitt í dag.

Á fundinum kynntu Katrín Jakobs­dóttir, formaður flokksins, og Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokksins, niðurstöður úr óformlegum viðræðum flokkanna.

„Eftir fjögurra tíma fund ákváðum við að fresta fundi. Við erum að fara yfir afrakstur óformlegra viðræðna. Þingmenn þurftu að spyrja spurninga og pæla í þessu. Því er ég að gefa þingflokknum færi á að sofa á þessu og skoða málið í rólegheitum. Síðan verður þetta bara að koma í ljós á morgun,“ segir Katrín sem kveðst vongóð um að hægt sé að landa góðum málefnasamningi við áðurnefnda tvo flokka.

Sjá einnig: „Eðlilegt að láta á það reyna hvort við getum fengið ásættanlegan málefnasamning“

„Þingflokkurinn stendur frammi fyrir því mati hvort það telji að það sem við höfum kynnt sé líklegt til árangurs í formi viðræðna. Því gaf ég fólki svigrúm til að meta stöðuna til morguns,“ heldur Katrín áfram.

„Ég tel að það sé hægt að leggja í þá vegferð að kanna þetta. Mitt mat er að við getum náð góðum málefnasamningi. Ég fer í þetta út frá málefnum, ekki persónulegum sigrum,“ undirstrikar formaður VG.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir þingflokksfundinn í gær sýna svo ekki verður um villst hvílík andstaða sé innan VG um þessa ríkisstjórnarmyndun.

„Andstaðan innan flokksins blasir við og því gæti þetta verið erfitt kjörtímabil. Þessi langi fundur gefur einnig til kynna að flokkurinn viti ekki í hvorn fótinn hann eigi að stíga,“ segir Eiríkur Bergmann. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.