Handbolti

Var nálægt því að jafna markafjöldann frá því í fyrra í einum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Egidijus Mikalonis var óstöðvandi í gær.
Egidijus Mikalonis var óstöðvandi í gær. vísir/vilhelm

Egidijus Mikalonis átti stórleik þegar Víkingur náði í óvænt stig gegn Haukum, 31-31, í 9. umferð Olís-deildar karla í gær.

Egidijus skoraði 17 mörk úr 24 skotum sem gerir 70,8% skotnýtingu. Hann nýtti öll átta vítin sín og gaf auk þess þrjár stoðsendingar.

„Ég var heppinn með skotin mín,“ sagði Egidijus, hógværðin uppmáluð, í samtali við Vísi eftir leikinn í gær.

„Ég hélt bara áfram að skjóta og hélt áfram að skora. Þetta er ekkert flóknara en það.“

Egidijus kom til Víkings frá KR í sumar. Hann lék aðeins átta leiki með KR í 1. deildinni á síðasta tímabili og skoraði í þeim 19 mörk.

Egidijus vantaði því aðeins tvö mörk til að jafna markafjöldann frá því í fyrra í leiknum gegn Haukum í gær.

Egidijus, sem er uppalinn á Selfossi, er markahæsti leikmaður Víkings á tímabilinu með 50 mörk í níu leikjum. Aðeins sex leikmenn hafa skorað fleiri mörk en hann í vetur.

Víkingar sitja í ellefta og næstneðsta sæti Olís-deildarinnar með þrjú stig. Þeir bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í vetur.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.