Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Haukar 31-31 | Mikalonis magnaður í jafntefli

Benedikt Grétarsson skrifar
Egidijus Mikalonis skoraði 17 mörk.
Egidijus Mikalonis skoraði 17 mörk. vísir/vilhelm
Haukar og Víkingur gerðu jafntefli í gríðarlegum baráttuleik, 31-31 þegar liðin mættust í níundu umferð Olísdeildar karla í handbolta. Staðan í hálfleik var 15-14. Egidijus Mikalonis átti hreint stórkostlegan leik fyrir Víking og skoraði 17 mörk.

Haukar eru áfram í þriðja sæti Olísdeildarinnar og hafa nú 13 stig að loknum níu leikjum. Víkingar eru áfram í 11. sæti, þrátt fyrir jafnteflið en hafa nú þrjú stig.

Heimamenn eiga mikið hrós skilið fyrir ákafa og baráttu. Ráðþrota Haukar bjuggust væntanlega við auðveldum leik en fyrr en varði voru Víkingar komnir í 5-2 og í miklu stuði.

Þá vöknuðu gestirnir, skoruðu næstu fimm mörk og breyttu stöðunni í 5-7. Þarna héldu eflaust einhverjir að Haukar væru að fara að stinga af en það var öðru nær.

Víkingar, leiddir áfram af stórleik Egidijusar Mikalonis, náðu aftur undirtökunum og héldu þeim allt til loka hálfleiksins. Mikalonis skoraði hvorki fleiri né færri en níu mörk í fyrri hálfleik og Haukavörnin átti engin svör gegn skyttunni.

Haukar mættu miklu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og það tók gestina um 10 mínútur að ná ágætum tökum á leiknum í stöðunni 18-22. Víkingar voru samt aldrei langt undan og börðust sem óðir væru um allan völl.

Sú barátta og frammistaða Egidijusar í sókninni, skilaði heimamönnum aftur inn í leikinn og lokakaflinn varð æsispennandi.

Títtnefndur Mikalonis jafnaði metin 25 sekúndum fyrir leikslok með marki úr vítakasti en kappinn var með 100% nýtingu á vítalínunni í kvöld. Haukar tóku leikhlé og fengu tvö skot til að vinna leikinn.

Davíð Svansson varði langskot Daníels Þórs Ingasonar og Hákon Daði Styrmisson skaut svo í stöngina í lokaskoti leiksins. Niðurstaðan jafntefli og það verða að teljast sanngjörn úrslit.

Af hverju varð jafntefli?

Jafnteflið er staðreynd vegna þess að Víkingar léku sinn besta leik í vetur og Mikalonis var gjörsamlega sturlaður í þessum leik.

Þetta er eitthvað sem Gunnar þjálfari getur byggt á fyrir næstu leiki. Haukar þurfa samt að vinna vel í sínum málum fyrir næsta leik, annars fer illa. Liðið virkaði flatt lengstum og þeir geta betur.

Hverjir stóðu upp úr?

Egidijus Mikalonis var einfaldlega stórkostlegur hjá Víkingum. Haukar reyndu að taka hann fastari tökum í seinni hálfleik en kappinn var óstöðvandi. Hjalti Már Hjaltason var gríðarlega drjúgur og duglegur á línunni og í vörn. Skemmtilegur leikmaður þarna á ferðinni.

Hjá Haukum var fátt um fína drætti.  Hornamaðurinn Halldór Ingi lék í seinni hálfleik og stóð sig vel. Björgvin varði ágætlega á köflum en heilt yfir voru Haukar frekar daprir. Það skrifast auðvitað á flotta frammistöðu Víkinga.

Hvað gekk illa?

Það gekk margt illa hjá báðum liðum en ég get ekki sleppt því að minnast á umgjörð leiksins. Ég geri mér fulla grein fyrir því að fólk er að gera þetta að mestu í sjálfboðaliðastarfi en þetta var einfaldlega ekki boðlegt í efstu deild.

Rúmum 30 mínútum fyrir leik voru áhorfendapallar ennþá inndregnir, engin blaðamannaaðstaða, ekkert net og aðalinngangurinn læstur. Fullt hrós á þær örfáu hendur sem voru að reyna að koma þessiu í lag en vinsamlegast girðið ykkur kæru Víkingar, þið eruð betri en þetta.

Hvað gerist næst?

Haukar mæta öðrum nýliðum, þegar Fjölnismenn mæta á Ásvelli. Það verður erfiður  leikur fyrir Hauka ef eitthvað mark er takandi á frammistöðunni í kvöld. Menn virkuðu flatir og óákveðnir lengstum gegn Víkingum og Haukar geta miklu betur.

Víkingar leika gríðarlega mikilvægan leik gegn Gróttu á Seltjarnarnesi og það er leikur sem má ekki tapast. Víkingar sýndu svo sannarlega í þessum leik að liðið getur spilað góðan handbolta og næsti leikur er klassískur fjögurra-stiga leikur.

Gunnar: Getum barist þó að við séum ekki bestir á landinu

Það var létt yfir Gunnari Gunnarssyni, þjálfara Víkings eftir leik.

„Ég er mjög ofarlega á þessum stolt-skala, líklega nálægt 10. Strákarnir gáfu allt í þennan leik, léku hörku vörn og voru skynsamir sóknarlega. Þetta var aðeins farið að þynnast út í lokin, menn farnir að fjúka út af með rauð spjöld en þá lögðu menn bara líf og sál í þetta.“

Við töluðum bara vel saman eftir tapið gegn Fjölni í bikarnum. Við erum ekki besta handboltalið á landinu en við getum barist. Svo vorum við bara að spila góðan handbolta á köflum í sókninni.

Gunnar, eins og aðrir Víkingar, var í skýjunum með frammistöðu Egidijusar Mikalonis í leiknum.

„Það fór nánast allt inn hjá honum í þessum leik. Hann átti svona leik á móti Stjörnunni fyrr í vetur. Þetta er ungur strákur og það býr mikið í honum. Nú þarf hann bara að finna stöðugleika og kannski setja saman nokkra leiki í röð þar sem hann skorar bara 8-9 mörk,“ sagði Gunnar glottandi.

Gunnar hrósaði líka línumanninum Hjalta Má Hjaltasyni sem lék mjög vel í fjarveru Ægis Hrafns Jónssonar.

„Hjalti hefur staðið sig frábærlega og skilar mjög góðu hlutverki. Núna er hann í aðalhlutverki fyrst að Ægir er ekki með og hann er mjög lunkinn á línunni og frábær varnarmaður. Auðvitað viljum við hafa Ægi í liðinu en Hjalti hefur staðið sig geysilega vel,“ sagði Gunnar að lokum.

Gunnar: Menn halda að þeir séu orðnir svaka kallar

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka var allt annað en sáttur eftir jafnteflið gegn Víkingi.

„Við skulum gefa Víkingum allt það hrós sem þeir eiga skilið en þeir voru síst lakari aðilinn hér í kvöld. Ég er samt virkilega svekktur hvernig mínir menn mættu til leiks. Menn voru bara með hausinn undir hendinni og alls ekki klárir í þetta verkefni.“

En hver er skýringin á því?

„Menn halda kannski að við séum orðnir einhverjir kallar en við vorum bara langt frá okkar venjulega styrk og það hefur bara sýnt sig í þessari deild, að þú lendir bara í vandræðum ef það er tilfellið. Ég er bara svekktur að með alla þessa reynslumiklu leikmenn og alla þessa leiðtoga í liðinu, að við mætum svona til leiks.“

Mikill hiti var í mönnum í kvöld og allt á suðupunkti lengstum. Dómarar leiksins voru umdeildir af báðum liðum, svo ekki sé fastara að orði kveðið.

„Ég skal bara viðurkenna að það var margt þarna sem ég skildi ekki. Þetta var öðruvísi lína en við erum vanir hingað til og margir furðulegir dómar sem kostuðu brottvísanir. Við sjálfir gerðum samt fleiri mistök en dómararnir í þessum leik en dómgæslan var ekki að hjálpa, það segir sig sjálft,“ sagði hundsvekktur Gunnar Magnússon.

Egidijus: Ægir er bara fyrir mér í sókninni

„Ég var heppinn með skotin mín,“ sagði hógvær hetja Víkinga, Egidijus Mikalonis eftir 31-31 jafntefli liðsins gegn Haukum. Óhætt er að segja að hann sé þá heppnasti maður landsins, því að hann skoraði hvorki fleiri né færri en 17 mörk í leiknum. En hver var galdurinn?

„Ég hélt bara áfram að skjóta og hélt áfram að skora. Þetta er ekkert flóknara en það.“

Og landsliðsmarkmaðurinn Björgvin Páll Gústavsson átti ekki roð í kallinn?

„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja en….já!“

Hinn kjarnyrti Egidius er sammála blaðamanni að Víkingar léku vel sem lið og geta byggt á þessari frammistöðu í næstu leikjum.

„Við skulduðum svolítið áhorfendum miðað við seinustu leikina hjá okkur. Fólk er að mæta og við töpum svo með 10-12 mörkum. Fólk var alveg að fara að hætta að nenna að mæta en við sýndum í kvöld að það er vel þess virði að mæta á leikina okkar.“

Skyttan er ekki bara eitruð inni á vellinum, heldur skaut hann líka liðsfélaga sinn á bólakaf með bros á vör.

„Ægir Hrafn var ekki með og það gefur okkur meira pláss í sókninni og ég gat skorað fleiri mörk. Ég held að Ægir sé bara fyrir, hann er svolítið stór maður,“ sagði 17 marka maðurinn léttur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira