Innlent

Þingflokkar Vinstri grænna og Framsóknar funda

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá þingflokksfundi Vinstri grænna sem hófst upp úr klukkan 13 í dag.
Frá þingflokksfundi Vinstri grænna sem hófst upp úr klukkan 13 í dag. vísir/anton brink
Þingflokksfundir Vinstri grænna og Framsóknarflokksins eru hafnir í Alþingishúsinu. Sjálfstæðismenn funduðu í Valhöll í morgun.

Á fundunum verður farið yfir stöðuna í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna sem staðið hafa yfir síðustu daga en búist er við því að Vinstri græn muni taka formlega afstöðu til þess hvort að fara eigi í formlegar viðræður við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk eða ekki.

Ljóst er að skiptar skoðanir eru innan þingflokks um hvort fara eigi í slíkar viðræður eður ei en þingflokkurinn fundaði í fjóra tíma um málið í gær. Ákveðið var að fresta fundinum til morguns en Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, sagði í samtali við Vísi í gærkvöldi að fundurinn hefði verið þungur.

„Það eru óneitanlega mörg álitamál uppi og það er mjög eðlilegt að það taki tíma að fara yfir þau,“ sagði Katrín og bætti við að mikil umræða hefði skapast á fundinum.

„Þetta var langur fundur eins og títt er hjá okkur í VG. Við fórum yfir stöðuna í þessum óformlegu viðræðum. Það var mikið talað og á endanum ákváðum við að geyma endanlega ákvörðun um málið til morguns.“

Frá fundi Framsóknar sem einnig hófst í þinghúsinu upp úr klukkan 13.vísir/anton brink
Þingflokkar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna eru með samtals 35 þingmenn. Vika er síðan Framsókn sleit stjórnarmyndunarviðræðum við VG, Samfylkinguna og Pírata og Katrín skilaði síðar þann sama dag umboði til stjórnarmyndunar til Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands.

Síðan þá hefur enginn verið með formlegt stjórnarmyndunarumboð en óformlegar þreifingar um myndun ríkisstjórnar hafa staðið yfir á milli flokkanna þriggja. Funduðu formennirnir meðal annars um helgina á leynistað úti á landi.

 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann væri bjartsýnn á að flokkarnir gætu náð saman og myndað sterka ríkisstjórn. Þannig hefði þeim tekist í samtölum síðastliðna daga að sigla fyrir allan meiriháttar ágreining og beina sjónum að þeim stóru málum sem var ágætis þverpólitísk samstaða um fyrir kosningar.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Margir í VG „með ónot í maganum“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sýnir því skilning að margir flokksmenn hennar kunni að hafa efasemdir um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×