Fótbolti

HM eða heimsendir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ítalir spiluðu illa í fyrri leiknum gegn Svíum.
Ítalir spiluðu illa í fyrri leiknum gegn Svíum. vísir/getty
Það vantar ekki dramatíkina á forsíðu ítalska blaðsins La Gazzetta dello Sport í dag.

„Allt eða ekkert“ er fyrirsögnin á forsíðunni og undir henni stendur að Giampiero Ventura, þjálfari ítalska fótboltalandsliðsins, reyni að forðast heimsendi með því að koma Ítalíu á HM í Rússlandi.

Sama stef er endurtekið í leiðara Luigis Garlando. „Heimsendirinn nálgast og Kremlin hefur aldrei virst vera svona langt í burtu,“ skrifar Garlando.

Ítalía mætir Svíþjóð á San Siro í seinni leik liðanna í umspili um sæti á HM í kvöld. Svíar unnu fyrri leikinn í Stokkhólmi með einu marki gegn engu og eru því með pálmann í höndunum fyrir leikinn í kvöld.

Ítalía hefur verið með á 18 af 20 heimsmeistaramótum. Ítölum mistókt síðast að komast á HM 1958, sem fór einmitt fram í Svíþjóð. Ítalska liðið hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari, síðast árið 2006.

Ventura er undir mikilli pressu og ef honum mistekst að koma Ítalíu eru dagar hans sem landsliðsþjálfari að öllum líkindum taldir.

Ítalir geta huggað sig við það að þeir hafa aldrei tapað landsleik í Mílanó. Þeir verða þó að sýna mun betri frammistöðu en í fyrri leiknum í Stokkhólmi þar sem þeir náðu sér engan veginn á strik.

Leikur Ítalíu og Svíþjóðar hefst klukkan 19:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×