Erlent

Tala látinna í jarðskjálftanum rís

Kjartan Kjartansson skrifar
Jarðskjálftinn olli gríðarlegri eyðileggingu í Sarpol-e Zahab í Íran þar sem 85.000 manns búa.
Jarðskjálftinn olli gríðarlegri eyðileggingu í Sarpol-e Zahab í Íran þar sem 85.000 manns búa. Vísir/AFP
Á fimmta hundrað manns eru nú sögð hafa farist í jarðskjálftanum öfluga sem skók Íran og Írak í gærkvöldi, langflestir í vesturhluta Írans. Þúsundir til viðbótar eru slasaðir. Björgunarsveitarfólk reynir nú að finna fólk í rústum húsa.

Jarðskjálftinn var af stærðinni 7,3. AP-fréttastofan hefur eftir embættismönnum í Íran að 407 manns að minnsta kosti hafi farist þar. Breska ríkisútvarpið BBC segir að níu til viðbótar hafi látið lífið vestan landamæranna í Írak.

Þá séu fleiri en sjö þúsund manns slasaðir. Flestir hinnar látnu eru í Kermanshah-héraði í Íran. Þriggja daga sorg hefur verið lýst yfir þar. Íranska ríkissjónvarpið segir að jarðskjálftinn hafi valdið mikilli eyðileggingu í þorpum þar sem hús eru gerð úr mold.

Skjálftinn hratt einnig af stað skriðuföllum sem hafa hægt á hjálparstarfi, að sögn Reuters.

Björgunarfólk bjargaði meðal annars móður og barni hennar úr rústum í Sarpol-e Zahab-sýslu sem varð verst úti. Þar búa 85.000 manns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×