Innlent

Taldi vinkonu sína hafa gengið í sjóinn eftir rifrildi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi við Sæbraut í gærkvöldi.
Frá vettvangi við Sæbraut í gærkvöldi. Vísir/Ernir
Allt bendir til þess að misskilningur á milli vinkvenna hafi orðið til þess að önnur hringdi í Neyðarlínuna og taldi hina hafa gengið í sjóinn. Mikill viðbúnaður var við Sæbraut í Reykjavík í gær þar sem leit að konunni stóð yfir í fjörutíu mínútur. Leit var hætt upp úr klukkan níu þegar í ljós kom að enginn hafði gengið í sjóinn.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að búið sé að yfirheyra konurnar. Það hafi verið gert í nótt og þeim í framhaldinu sleppt.

„Þarna var eitthvað ósætti þeirra á milli. Önnur hélt að hin hefði farið í sjóinn,“ segir Guðmundur Páll. Ekki hafi því verið um gabb að ræða eins og talið var í fyrstu heldur misskilning að ræða. 

Hann segir ekki liggja ljóst fyrir hvort ákæra verði gefin út í málinu. Farið verði yfir gögn málsins með ákærusviðinu áður en sú ákvörðun verði tekin. Konurnar, sem eru á fertugsaldri, voru ekki undir áhrifum áfengis eða neitt slíkt.

 


Tengdar fréttir

Leitað í sjónum við Sæbraut

Litlar upplýsingar fást um málið en neyðarlínunni barst tilkynning fyrr í kvöld sem leiddi til þess að ákvörðun var tekin um að leita í sjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×