Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Þór Þ. 92-58 | Stólarnir á toppinn

Hákon Ingi Rafnsson skrifar
vísir/eyþór
Tindastóll burstaði Þór Þorlákshöfn, 92-58, í 7. umferð Domino´s deildar karla og komu sér þar með á topp deildarinnar.

Liðin byrjuðu leikinn hnífjöfn en í lok 1. leikhluta var staðan 21-20. Tindastólsmenn urðu snemma fyrir áfalli þegar Pétur Rúnar lykilmaður Tindastóls sneri sig, snemma í fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta fóru þó heimamenn að gefa í og komu sér í 10 stiga mun en Brandon Garrett átti frábæra innkomu í þann leikhluta.

Í 3. leikhluta misstu Þórsarar heimamenn þó fram úr sér sem komust í 27 stiga forystu, 69-42.

Eftir það var sigurinn aldrei í hættu en þrátt fyrirr það héldu heimamenn áfram að sækja á lið gestanna. Að lokum sigruðu heimamenn með 34 stigum 94-58 enda spiluðu þeir frábærlega allan leikinn.

Afhverju vann Tindastóll?

Tindastóll byrjaði að berjast frá 1. mínútu og hélt því áfram út allan leikinn. Gestirnir voru hinsvegar ekki jafn góðir og það leit út eins og þeir væru bara þreyttir á tímapunkti.

Hvað stóð upp úr?

Halldór Garðar, leikmaður Þórs, skoraði 22 stig og var hann með meira en helming af stigum Þórs í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik náðu heimamenn þó að stoppa hann og þá skoraði hann aðeins 3. Tindastóll voru með 16 fleiri fráköst en Þórsarar og var það stór partur af sigri þeirra.

Hvað gekk illa?

Skotnýting Þórs var mjög slök en þeir voru samtals með 33% skotnýtingu, aðeins 15% úr þristum.

Hvað gerist næst?

Tindastóll fær Hött til sín og vonast eftir enn einum sigrinum. Þór Þorlákshöfn fá hins vegar Valsmenn til sín og þeir þurfa helst að vinna þann leik til að komast aftur í gang.

Einar Árni: Við höfum verið ótrúlega slakir

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs Þorlákshafnar var óánægður með spilamennskuna í kvöld. „Við vorum bara slakara liðið, fyrri hálfleikur var góður á köflum en sá seinni hrein hörmung.“

Þórsarar fengu nýjan leikmann til sín og hann var að leika sinn fyrsta leik í kvöld fyrir liðið. „Ég er ekki að svekkja mig á DJ Balentine, hann er alveg lappalaus eftir ferðalagið. Við hinir gáfumst þó allt of fljótt upp,“ sagði Einar Árni sem viðurkenndi að hans menn þurfa að spýta í lófana.

„Við höfum verið ótrúlega slakir og þessi leikur var bara því miður framhald af því.“

Helgi Rafn: Liðsheildarsigur

Helgi Rafn Viggósson, leikmaður Tindastóls, sagði að Stólarnir hefðu unnið leikinn á sterkri liðsheild. „Þetta var bara liðsheildin, spiluðum frábærlega en misstum Pétur þó út snemma leiks.“

Tindastóll fékk einnig nýjan leikmann í sinn leikmannahóp eftir að Antonio Hester sneri sig á ökkla eftir leik gegn Keflavík. „Brandon á eftir að slípast inn í þetta. Hann er nýkominn samt svo það er erfitt að segja meira,“ sagði Helgi Rafn.

Martin: Vona að Pétur verði tilbúinn í næsta leik

Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var ánægður með vörn sinna manna í kvöld.

„Vörnin vann leikinn. Við héldum þeim í 20 stigum í seinni hálfleik, við unnum fráköstin og héldum orkunni uppi,“ sagði hann.

Pétur Rúnar, lykilmaður Tindastóls, meiddist snemma í fyrsta leikhluta og var frá nærri allan leikinn.

„Það er of snemmt að segja eitthvað um meiðsli Péturs, ég vona bara að hann verði tilbúinn í næsta leik, annars erum við með breiðan leikmannahóp og liðið fellur ekki þó að einn leikmaður detti út.“

Martin sagði að hann vildi ekki breyta neinu fyrir næsta leik. „Við verðum bara að halda áfram að spila fasta vörn og sókn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira