Erlent

Um tvö þúsund konur í sænska tónlistarheiminum greina frá kynferðisbrotum gegn sér

Atli Ísleifsson skrifar
Carola, Zara Larsson og Robyn skrifa undir yfirlýsinguna.
Carola, Zara Larsson og Robyn skrifa undir yfirlýsinguna. Vísir/Getty

1.993 konur sem starfa í heimi sænskrar tónlistar skrifa undir yfirlýsingu sem birtist í Dagens Nyheter í morgun þar sem þær segja frá kynferðisbrotum gegn sér og áreitni sem þær hafa orðið fyrir.



Sænskar nonur sem starfa við leiklist og innan dómskerfisins hafa á síðustu dögum birt yfirlýsingar og sagt frá reynslu sinni af kynferðisbrotum og karllægri menningu innan geiranna.



„Þegar manni er nauðgað af duglegum karlkyns tónlistarmanni þá glatar maður mörgum vinum,“ segir í einni reynslusögunni.



Í hópi söngkvennanna sem skrifa undir yfirlýsinguna eru Zara Larsson, Carola, Robyn, systurnar í First Aid Kit, Lill-Babs, Seinabo Sey, Sabina Ddumba og söngkonurnar í Icona Pop.



Rúmlega þrjú þusund söngkonur í hópnum

Söngkonurnar söfnuðu saman reynslusögum sínum í lokuðum Facebook-hóp þar sem í eru á fjórða þúsund kvenna sem starfa með tónlist. Allar reynslusögurnar í greininni sem birtist á DN eru nafnlausar.



„Tónlistarútgefandinn sem leikur draumabarn guðs á Facebook og hefur miklar skoðanir um alla aðra en stofnar til átaka í öllum veislum, hefur tekið konu hálstaki á tónlistarviðburði, kallað margar fyrir píku, hóru og svo framvegis... Hann kemst hins vegar alltaf upp með það þar sem „hann var aðeins of fullur,“ segir í einni sögunni.



„Þegar manni er nauðgað af duglegum karlkyns tónlistarmanni glatar maður mörgum vikum. „Það sem hann gerði var rangt. En hann er mikilvægur tengiliður í tónlistarbransanum og ég vil ekki slíta tengslin. Ég vona að þú skiljir og virðir það,“ er dæmi um hvað vinir hafa sagt mér í tengslum við það sem hefur gerst,“ er annað dæmi.



Söngkonurnar segjast ekki munu þegja lengur yfir þessum málum. Er því beint til valdamanna innan geirans að það sé á þeirra ábyrgð að svona hlutir endurtaki sig ekki. „Við vitum hverjir þið eruð!“ eru síðustu orðin í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×