Viðskipti innlent

Blokkaríbúðir Stapa standa enn ónotaðar

Sveinn Arnarsson skrifar
Blokkin er búin 35 íbúðum sem eru frá 60 til 130 fermetrar að stærð. Framkvæmdastjóri Stapa, vill ekki gefa upp kaupverð íbúðanna.
Blokkin er búin 35 íbúðum sem eru frá 60 til 130 fermetrar að stærð. Framkvæmdastjóri Stapa, vill ekki gefa upp kaupverð íbúðanna. Vísir/auðunn
Stapi Lífeyrissjóður á Akureyri keypti 35 íbúða blokk á einu bretti í ágústmánuði. Fasteignamat íbúðanna er samanlagt 900 milljónir króna. Frá þeim tíma hefur nýbyggingin staðið auð og enginn flutt inn í blokkina.

Blokkin sem um ræðir er staðsett í Undirhlíð 1 á Akureyri. Í blokkinni eru 35 íbúðir sem eru frá 60 til 130 fermetrar að stærð. Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, vill ekki gefa upp kaupverð íbúðanna.

„Samningar voru undirritaðir við byggingaraðilann á vordögum og það er rétt að íbúðirnar voru tilbúnar í ágúst. Það sem gerist svo í kjölfarið er að framkvæmdastjóri og sjóðsstjóri lífeyrissjóðsins hætta störfum og því er lagt nýtt mat á verkefnið sem slíkt,“ segir Jóhann Steinar.

Íbúðirnar voru keyptar með það að markmiði að leigja þær á frjálsum markaði. Til er lagaheimild fyrir lífeyrissjóði til tað fjárfesta í íbúðarhúsnæði og taldi lífeyrissjóðurinn þetta ákjósanlegan fjárfestingarkost síðastliðið vor. Ljóst er að stjórn og framkvæmdastjóri eru ekki á þeirri skoðun eins og staðan er núna.

„Við erum með blokkina í söluferli og mun það klárast á næstu vikum. Við erum í samningaviðræðum við aðila sem vilja kaupa eignina,“ bætir Jóhann Steinar við.

Stapi vill selja blokkina í heilu lagi og því eru ekki margir aðilar á markaði sem hafa burði í svoleiðis fjárfestingar. Leiða má að því líkur að félög á borð við Heimavelli og Almenna leigufélagið séu á bak við það að kaupa húsnæðið.

„Við vonumst eftir því að koma ekki út úr þessu með tapi fyrir sjóðinn. Hins vegar er ljóst að á meðan enginn er í íbúðunum þá eru ekki tekjur að koma inn og á móti þurfum við að greiða rafmagn og hita, fasteignagjöld og annan kostnað sem hlýst af því að eiga fasteignir,“ segir Jóhann Steinar.

Hann áréttar að engin tengsl séu á milli fjárfestingarinnar og þeirrar staðreyndar að bæði sjóðsstjóri og framkvæmdastjóri hættu störfum fyrir Stapa á svipuðum tíma og salan gekk í gegn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×