Viðskipti innlent

Kaupa 1,45 prósenta hlut í Kviku

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Miklar breytingar hafa orðið á hluthafahópi Kviku á undanförnum mánuðum og misserum.
Miklar breytingar hafa orðið á hluthafahópi Kviku á undanförnum mánuðum og misserum. Vísir/GVA
Einkahlutafélagið RPF, sem er í jafnri eigu Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarins Arnars Sævarssonar, starfsmanna fasteignasölunnar RE/MAX Senter, er komið í hluthafahóp Kviku fjárfestingarbanka með 1,45 prósenta hlut. Er félagið þannig orðið fjórtándi stærsti hluthafi bankans.

Félagið keypti hlutinn af fjárfestingafélaginu Vörðu Capital, en eins og greint var frá í Markaðinum í gær hefur síðarnefnda félagið selt allan hlut sinn í Kviku.

Varða Capital, sem er að stærstum hluta í eigu viðskiptafélaganna Jónasar Hagans Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar, var áður fimmti stærsti hluthafi bankans með 7,7 prósenta eignarhlut.

Auk RPF keyptu meðal annars hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, sem eiga Johan Rönning, og Einar Sveinsson fjárfestir hlut Vörðu Capital.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa bréf í Kviku verið að ganga kaupum og sölum að undanförnu á genginu 6 til 6,3 krónur á hlut.

Varða Capital átti tæplega 112 milljónir hluta að nafnverði í bankanum og því má áætla að félagið hafi fengið samtals í kringum 700 milljónir króna fyrir 7,7 prósenta hlut sinn í Kviku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×