Fótbolti

Viktor Karl yfirgefur AZ Alkmaar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viktor Karl Einarsson hefur verið hjá AZ Alkmaar síðan 2013.
Viktor Karl Einarsson hefur verið hjá AZ Alkmaar síðan 2013. vísir/getty
Viktor Karl Einarsson, U21 árs landsliðsmaður Íslands í fótbolta, mun að öllum líkindum yfirgefa hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar í byrjun nýs árs, samkvæmt heimildum Vísis.

Þessi hrikalega efnilegi miðjumaður, sem verður 21 árs í lok janúar, hefur verið í röðum AZ frá 2013 en ekki enn þá fengið að spila leik með aðalliðinu í hollensku úrvalsdeildinni.

Hann hefur staðið sig vel með varaliði Alkmaar í neðri deildum hollenska boltans en nú þarf hann að fara að spila reglulega í efstu deild.

Samkvæmt heimildum Vísis er mikill áhugi á Viktori í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og líklegt að hann færi sig til Norðurlandanna áður en ný leiktíð hefst þar næsta vor.

Viktor hefur verið fastamaður í unglingalandsliðum Íslands allan sinn feril en hann er búinn að spila alla þrjá leiki U21 árs landsliðsins í undankeppni EM 2019 og skora eitt mark. Hann á í heildina 29 leiki að baki fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×