Erlent

Fyrrverandi ráðherrar Katalóníu mæta fyrir dómara í Madríd

Atli Ísleifsson skrifar
Katalónski þingmaðurinn Anna Simo mætir í dómshúsið í morgun.
Katalónski þingmaðurinn Anna Simo mætir í dómshúsið í morgun. Vísir/AFP
Fyrrverandi ráðherrar héraðsstjórnar Katalóníu mættu í morgun fyrir rétt í Madríd til yfirheyrslna vegna ásakana um uppreisn gegn spænska ríkinu og fjárdrátt. Eiga þeir yfir höfði sér allt að þrjátíu ára dóm, verði þeir fundnir sekir.

Alls mættu níu manns fyrir rétt en Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnarinnar, og fjórir til viðbótar hunsuðu boðunina. Saksóknarar segja að mögulegt sé að gefin verði út handtökuskipun á hendur fólkinu. Puigdemont heldur nú til í Belgíu og hefur sagt að um pólitísk réttarhöld sé að ræða.

Spánarstjórn hefur tekið yfir stjórn héraðsins og boðað til kosninga til héraðsþings þann 21. desember næstkomandi. Þing Katalóníu lýsti yfir sjálfstæði héraðsins í síðustu viku, en stjórnlagadómstóll Spánar hefur ógilt yfirlýsinguna.

Fólkið hefur ekki verið formlega ákært en dómari þarf að taka afstöðu þess hvort þau verði sett í gæsluvarðhald á meðan á rannsókn stendur sem gæti síðar leitt til réttarhalda. Dómarinn gæti einnig úrskurðað að þau verði látin laus, gegn því að þau skili inn vegabréfum sínum.


Tengdar fréttir

Puigdemont vill yfirheyrslu í Belgíu

Yfirheyra ætti Carles Puigdemont, brottrekinn forseta héraðsstjórnar Katalóníu, í Belgíu. Þar er Puigdemont nú staddur en þetta sagði Paul Bekaert, lögmaður hans, í gær.

Flúinn til Belgíu en sækir ekki um hæli

Fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu verður mögulega ákærður fyrir uppreisn og gæti átt 30 ára fangelsi yfir höfði sér. Hann var í Belgíu í gær og sagðist staddur þar til að geta talað frjálslega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×