Viðskipti innlent

O'Learys bætist í öldurhúsaflóru Kópavogs í næsta mánuði

Atli Ísleifsson skrifar
Staðurinn verður við hlið Skemmtigarðsins.
Staðurinn verður við hlið Skemmtigarðsins. Vísir/Anton
Veitingastaðurinn O’Learys mun opna í Smáralind í Kópavogi í næsta mánuði, en auglýst var eftir þjónum í síðasta helgarblaði Fréttablaðsins.

O’Learys er sænsk veitingahúsakeðja með á annað hundrað veitingastaða víðs vegar um heim. Fyrsti staðurinn opnaði í Gautaborg árið 1988. Græni liturinn einkennir staðina en stofnandinn fékk á sínum tíma hugmyndina að staðnum í Nantucket, fyrir utan Boston.

Á heimasíðu staðarins kemur fram að viðskiptavinir staðanna séu um þrjár milljónir á ári hverju, en veitingastaði O’Learys má finna í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Spáni, Kína, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Víetnam, Tyrklandi, Singapúr, Ungverjalandi og nú brátt á Íslandi.

Staðurinn mun bjóða upp á tugi sjónvarpsskjáa þar sem sýnt verður frá íþróttaviðburðum hvers kyns. Staðurinn mun taka 180 manns í sæti og verður við hlið Skemmtigarðsins.

Forsvarsmaður staðarins er Elís Árnason.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×