Erlent

Ósongatið hefur ekki verið minna í tæp þrjátíu ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu eins og það leit út árið 1992.
Gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu eins og það leit út árið 1992. Vísir/AFP
Gatið í ósonlagi jarðarinnar er að skreppa saman og hefur ekki verið minna frá árinu 1988. Engu að síður var gatið um 19,6 milljón ferkílómetrar að stærð þegar það náði árlegu hámarki sínu í september.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA segir að gatið hafi minnkað um 3,3 milljónir ferkílómetra á milli ára. Vísindamenn hennar rekja það til óvenjumikilla hlýinda í heiðhvolfinu frá 2016. Hlýrra loft hægir á tapi ósons í lofthjúpnum af völdum mengandi klórflúorkolefna, að því er segir í frétt Washington Post.

Þrjátíu ár eru nú liðin frá því að ríki heims náðu saman um Montreal-sáttmálann til að takmarka losun efna sem eyða ósonlaginu. Þá hafði gat í ósonlaginu myndast, aðallega yfir Suðurskautslandinu. Óson ver líf á jörðinni fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum sólar.

Þrátt fyrir árangurinn sem hefur náðst í stöðva stækkun gatsins eru klórflúorkolefni lífseig í lofthjúpnum. Vísindamenn telja að ósonlagið nái ekki fyrri styrk fyrr en í kringum 2070.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×