Enski boltinn

Bilic bjóst við því að verða rekinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Slaven Bilic.
Slaven Bilic. Vísir/Andri Marinó
Slaven Bilic segist hafa búist við því að honum yrði sagt upp hjá West Ham, en félagið tilkynti brottrekstur Króatans fyrr í dag.

„Ég er leiður og vonsvikinn, en ekki út í félagið. Í sannleika sagt bjóst ég við þessu,“ sagði Bilic í viðtali við Sky Sports í dag.

„Ég er mjög stoltur af því sem ég gerði hér. Við byrjuðum þetta mikilvæga tímabil ekki nógu vel.“

Bilic var ráðinn til félagsins sumarið 2015.

„Við áttum frábært fyrsta tímabil. Annað tímabilið vissum við að yrði erfitt, áttum í vandræðum og vorum að færa okkur um heimavöll. Við réðum vel við það, enduðum um miðja deild.“

„Við vonuðumst eftir því að byggja á þeim árangri á þessu tímabili, en náðum því bara ekki. Eins og hjá mörgum félögum í úrvalsdeildinni og í Evrópu þá þarf stjórinn að gjalda þess,“ sagði Bilic.

West Ham er í fallsæti í deildinni eftir leiki helgarinnar, en liðið tapaði 1-4 gegn Liverpool á heimavelli á laugardag.

„Þú trúir alltaf að þú getir snúið genginu við, en það þýðir ekki að ég skilji ekki þessar aðgerðir félagsins.“

„Stuðningsmennirnir voru mér frábærir, frá byrjun og til síðasta dags, og það skiptir mig miklu. Þetta var meira en bara starf, þetta var persónulegt vegna sambands míns við félagið,“ sagði Slaven Bilic.


Tengdar fréttir

Bilic rekinn frá West Ham

Slaven Bilic hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra West Ham. Félagið sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis nú rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×