Skoðun

Að hlusta af athygli

Ingrid Kuhlman skrifar

Hraði nútímans gerir það að verkum að samskipti verða stundum að formsatriði, svona eins og þegar einhver býður okkur „góðan dag“ úti í búð. Við höldum að við séum að hlusta en heyrum samt ekki hvað viðmælandi okkar er að segja í raun og veru. Stundum heyrum við bara það sem við viljum heyra. Í samskiptum skiptir miklu máli að hlusta af athygli og endurtaka eða umorða hvað við höldum að viðmælandinn sé að meina til að athuga hvort við höfum skilið hann rétt.



Einnig er mikilvægt að spyrja skilmerkilegra spurninga ef eitthvað er óskýrt. Eftir­farandi atriði geta gert samskiptin skilvirkari:



1. Hreinsa hugann

Mikilvægt er að hreinsa hugann af hvers kyns hugsunum og (for)dómum. Fyrirfram mótaðar skoðanir geta komið í veg fyrir að við heyrum hvað fólk er að meina í raun og veru. Góður hlustandi hefur taumhald á þörf sinni fyrir að komast að sjálfur og dæma, gagnrýna eða útskýra.



2. Halda augnsambandi

Augnsamband er merki um athygli og umhyggju auk þess sem það gerir okkur auðveldara fyrir að fylgjast með líkamstjáningu og svipbrigðum.



3. Setja sig í spor viðmælandans

Við bregðumst við heiminum eins og við sjáum hann. Því er mikilvægt að setja sig í spor annarra og reyna að sjá heiminn eins og þeir sjá hann. Virk hlustun felur ekki í sér að við séum sammála öllu því sem viðmælandi okkar segir, aðeins að við leggjum okkur fram um að skilja sjónarhorn hans eða skoðanir.



4. Ekki gefa sér neitt fyrirfram

Oft gefum við okkur að við vitum hvað viðmælandi okkar er að meina. Betra er að biðja hann um útskýringar frekar en að draga ályktanir.



5. Vera óhræddur við þagnir

Góður hlustandi er óhræddur við þagnir og leyfir fólki að tala. Hann sýnir áhuga með líkamsbeitingu (kinkar kolli, hallar sér fram, sýnir lófana og hallar höfðinu) svo að viðmælandinn fái á tilfinninguna að hann leggi sig fram við að skilja orð hans.



Að hlusta af athygli á aðra er merki um mikilvægi, virðingu, skilning og umhyggju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×