Erlent

Flúði fótgangandi með börnin frá Sýrlandi daginn sem maðurinn hennar var myrtur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Andaleeb er 25 ára tveggja barna móðir og ekkja sem flúði stríðið í Sýrlandi og heldur nú til í flóttamannabúðum í Jórdaníu.
Andaleeb er 25 ára tveggja barna móðir og ekkja sem flúði stríðið í Sýrlandi og heldur nú til í flóttamannabúðum í Jórdaníu.
„Já, ég man daginn sem ég ákvað að flýja. Dagurinn var mjög erfiður. Maðurinn minn dó þennan dag. Dagurinn var skelfilega hræðilegur, ekki lítið hræðilegur,“ segir Andaleeb, 25 ára ekkja sem býr í flóttamannabúðunum í Zaatari í Jórdaníu.

Landsnefnd UN Women á Íslandi hefur nú birt áhrifamikið myndband úr búðunum þar sem Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi, ræðir við Andaleeb en hún segir griðastaði UN Women í flóttamannabúðunum hafa breytt lífi sínu.

Andaleeb flúði ein fótgangandi með börnin sín tvö frá Sýrlandi eftir að eiginmaður hennar var myrtur á heimili þeirra fyrir framan hana og börnin.

Hún hefur haldið til í Zaatari í fimm ár en hún var hamingjusamlega gift og átti stóra og nána fjölskyldu í Sýrlandi áður en stríðið braust út. Að hennar sögn var lífið fullkomið en svo braust stríðið og maður hennar og barnsfaðir var myrtur.

Andaleeb segist ekki hafa búist við því að komast til Jórdaníu þar sem ferðalagið hafi verið mjög erfitt. Hún gekk í um 24 klukkustundir haldandi á börnunum sínum tveimur.

Andaleeb glímdi síðan við mikið þunglyndi eftir að hún kom í flóttamannabúðirnar og fór lítið út á meðal fólks, en svo kynntist hún griðastað UN Women og þar með öðrum konum í sömu stöðu og hún.

„Ég heyrði að þau væru að ráða starfsfólk, ég skráði mig og var ráðin af UN Women. Það breytti sálrænu ástandi mínu mikið. Áður var ég mikið heima en hér kynntist ég nýju fólk. Mér leiðist ekki lengur,“ segir Andaleeb og bætir við að andrúmsloftið sé létt og konurnar hlæji og tali saman.

Myndband UN Women, sem er hluti af söfnunarátakinu Konur á flótta, má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en söfnunina má styrkja með því að senda smsið KONUR í símanúmerið 1900.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×