Innlent

Kannast ekki við bandalag með Miðflokknum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Inga Sæland ræðir við fjölmiðla að loknum fundi sínum með forseta Íslands.
Inga Sæland ræðir við fjölmiðla að loknum fundi sínum með forseta Íslands. Vísir/Eyþór
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir það liggja í augum uppi að sá flokkur sem er með mestan þingstyrk að loknum kosningum eða sá sem geti talist sigurvegari kosninganna skuli fá umboð til stjórnarmyndunar.

Þetta sagði hún í samtali við blaðamenn að loknum fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í dag og átti þar við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins. Hún segist þó ekki kannast við að vera kominn í kosningabandalag með Miðflokknum.

„Við drukkum alveg yndislegt kaffi og svo spjölluðum við um heima og geima og hið pólitíska landslag,“ sagði Inga um fundinn með forsetanum.

Aðspurð um bandalag Flokks fólksins og Miðflokksins í stjórnarmyndunarviðræðum sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ýjaði að eftir sinn fund, sagðist Inga ekki kannast við neitt slíkt.

„Ég hef nú ekki heyrt um neitt bandalag. Við spjölluðum nú bara saman í dag og Sigmundur var svo elskulegur að biðja bílstjórann sinn að skutla mér heim,“ sagði Inga.

„En við erum afskaplega lík um margt í okkar stefnu þannig að eðli málsins samkvæmt tölum við saman.“





Inga Sæland á fundi forseta í dag.Vísir/Eyþór
Hún segir að Flokkur fólksins sé bæði reiðubúinn til að starfa í ríkisstjórn sem og í öflugri stjórnarandstöðu. Hún segir það vel koma til greina að slást í lið með fráfarandi stjórnarandstöðunni í ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

„Við gengum óbundin til þessara kosninga og við erum enn óbundin þannig lagað séð, þó að sumir stjórnmálaflokkar séu meira inn á okkar stefnu en aðrir. Þannig að það væri lang farsælast ef við gætum þjappað saman þeim flokkum sem væru með svipuð og sambærileg málefni, en það kemur allt til greina hvað það varðar,“ segir Inga.

Hún segir að enginn hafi leitað til hennar til formlegra viðræðna en hún finni þó engan kala í garð flokksins.

„Það er bara afskaplega gaman núna og við erum að spjalla saman. Það eru svona o´formlega þreifingar eins og sagt er. Svo sjáum við hvað forsetinn gerir.“

Hver finnst þér að ætti að fá umboðið?

„Að mínu mati þá finnst mér það liggja nokkuð í augum uppi að annað hvort sá sem er með stærsta flokkinn eða sá sem er sigurvegari kosninganna.“

Hver er sigurvegari kosninganna?

„Það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkurinn.“


Tengdar fréttir

„Við vorum að koma af leynifundi“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að hann og Inga Sæland hafi verið að koma af leynifundi og því hafi hún verið í aftursæti bifreiðar hans þegar hann kom á fund forseta á Bessastöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×