Innlent

Leita Bandaríkjamanns sem sást síðast á Íslandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan mun svipast um eftir bílaleigubíl mannsins á þekktum ferðamannastöðum á Suðurlandi en síðast er vitað um ferðir mannsins þegar hann skráði sig út af HI Hostel við Skógafoss.
Lögreglan mun svipast um eftir bílaleigubíl mannsins á þekktum ferðamannastöðum á Suðurlandi en síðast er vitað um ferðir mannsins þegar hann skráði sig út af HI Hostel við Skógafoss. Vísir/Eyþór
Lögreglan á Suðurlandi leitar að bandarískum karlmanni sem ætlaði að dvelja hér á landi í einn dag. Maðurinn kom með flugi til Íslands 12. október síðastliðinn og átti bókað flug til Parísar daginn eftir og skila sér aftur til Bandaríkjanna 19. október síðastliðinn.

Lögreglan á Suðurlandi segist ætla að svipast um eftir bílaleigubíl mannsins á helstu ferðamannastöðum Suðurlandsins en hefur ekki lýst eftir honum. Ef eftirgrennslan á ferðamannastöðum ber ekki árangur verður mögulega farið þá leið að lýsa opinberlega eftir honum.

Maðurinn heitir Jaspinderjit Singh en kærasta hans ritar á Facebook að fjölskyldan hans hafi ekki heyrt frá honum síðan hann var á Íslandi. Hún segir þau hafa verið í sambandi við lögreglu og sendiráð og nú hafi þau ákveðið að leita á náðir Internetsins.

Hann er um 173 sentímetrar á hæð og af indverskum uppruna en síðast þegar var vitað var hann klæddur í svartan Puma-jakka með hvítum röndum á ermunum. Hann var klæddur í gráar buxur og í svörtum og hvítum Nike-strigaskóm og með North Face-bakpoka á sér. Þá er hann einnig sagður jafnan ganga með svört gleraugu.

Kærastan hans segir á Instagram að síðast sé vitað um ferðir hans þegar hann skráði sig út af HI Hostel við Skógafoss 13. október síðastliðinn.


Tengdar fréttir

Bandaríski ferðamaðurinn fundinn

Það var laust eftir hádegi sem lögreglan á Suðurlandi fann bílaleigubíl mannsins á bílastæðinu skammt frá flugvélarflakinu á Sólheimasandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×