Erlent

Spánarþing samþykkir að afturkalla sjálfstjórn Katalóníu

Atli Ísleifsson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, flutti ræðu í sal öldungadeildar Spánarþings í morgun.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, flutti ræðu í sal öldungadeildar Spánarþings í morgun. Vísir/AFP
Meirihluti þingmanna öldungadeildar Spánaðarþings hefur samþykkt tillögu ríkisstjórnar landsins að afturkalla sjálfstjórn Katalóníuhéraðs. Er það gert með vísun í 155. grein spænsku stjórnarskrárinnar.

Frá þessu greina spænskir fjölmiðlar. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, biðlar á Twitter til Spánverja að halda ró sinni. Segir hann að röð og reglu verði brátt komið á í Katalóníu á ný.

Katalónska þingið samþykkti fyrir um klukkustund að Katalónía lýsi yfir sjálfstæði. Í leynilegri kosningu á katalónska þinginu greiddu sjötíu þingmenn með tillögunni, tíu gegn og tveir skiluðu auðu. Sambandssinnar sniðgengu atkvæðagreiðsluna og yfirgáfu þingsalinn áður en hún hófst.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hvatti í morgun öldungadeildarþingmenn Spánarþings til að samþykkja tillögu um að Spánarstjórn taki yfir stjórn Katalónu. Í ræðu sinni sagði Rajoy nauðsynlegt að koma Carles Puigdemont, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, varaforsetanum og öllum ráðherrum héraðsstjórnarinnar frá völdum. Nauðsynlegt væri að koma á lögum, lýðræði og stöðugleika í Katalóníu á nýjan leik.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum héraðsstjórnar Katalóníu og Spánarstjórnar í Madríd eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í upphafi mánaðar þar sem mikill meirihluti þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði með því að lýsa yfir sjálfstæði. Kosningaþátttakan var 43 prósent. Stjórnlagadómstóll Spánar hafi dæmt atkvæðagreiðsluna ógilda.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×