Innlent

Aukin svartsýni á þróun efnahagsmála

Höskuldur Kári Schram skrifar
Verulega hefur dregið úr tiltrú stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins á þróun efnahagsmála og telja þeir aðstæður í atvinnulífinu fara versnandi á næstu mánuðum. Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir margt benda til þess að yfirstandandi hagsveifla hafi náð hámarki.

Miklar breytingar hafa orðið á væntingum stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins þegar kemur að þróun efnahagsmála samkvæmt nýlegri könnun Gallup. Almennt gera þeir ráð fyrir aukinni verðbólgu á næstu sex mánuðum samfara hækkandi verðlagi og að krónan muni veikjast.

„Þeir bera greinilega ugg í brjósti varðandi framvinduna en meta núverandi stöðu nokkuð góða eins og þeir hafa gert undanfarin ár. Það sem er óvenjulegt er að það hefur ekki mælst meiri svartsýni síðastliðin fimm ár,“ segir Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hann segir að samkeppnisstaðan fari versnandi og að hagnaður fyrirtækja sé undir væntingum.

„Ég held að þetta séu merki um það að við séum á toppi hagsveiflunnar og menn sjái ekki fram á jafn mikinn vöxt og verið hefur undanfarin misseri. Menn búast þó við áframhaldandi vexti en að hann verði hægari,“ segir Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×