Erlent

Ben Affleck biðst afsökunar á að hafa káfað á Hilarie Burton

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hilarie Burton hló til að bresta ekki í grát þegar Ben Affleck káfaði á henni
Hilarie Burton hló til að bresta ekki í grát þegar Ben Affleck káfaði á henni Vísir/getty

„Ég sýndi af mér óviðeigandi hegðun í garð fröken Burton og biðst innilegrar afsökunar,“ segir leikarinn Ben Affleck á Twittersíðuna sína í dag eftir að mál frá árinu 2003 var dregið fram í dagsljósið.

Á dögunum fetaði Affleck í fótspor þeirra sem hafa fordæmt kynferðislegt ofbeldi og áreitni kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein. Í afhjúpandi umfjöllun The New Yorker greindu leikkonurnar Ashley Judd og Rose McGowan frá kynferðislegu áreiti af hálfu Weinsteins. Síðan þá hefur mikill fjöldi kvenna stigið fram með ásakanir á hendur Weinstein.Ben Affleck sagði í löngu máli á Facebook og Twittersíðu sinni að hann væri bæði leiður og reiður yfir því að maður sem hann hafi unnið fyrir hafi notað valdastöðu sína til að ógna, áreita og misnota konur. Það hafi vakið með honum óhug að lesa frásagnir kvenna af hátterni Weinstein. „Þetta er með öllu óásættanlegt. Ég spyr mig hvað ég geti gert til að passa að þetta komi ekki fyrir fleiri. Við þurfum að gera betur til að vernda systur okkar, vini, samstarfsfélaga og dætur,“ segir Affleck í stöðuuppfærslu sinni.

Fordæming leikarans virðist ekki hafa farið vel í alla en einn netverjanna á Twitter sagði að Affleck hefði betur þagað. Hann hafi sannarlega ekki verið að hugsa um dætur sínar þegar hann yfirgaf þær til að vera úti á lífinu með barnfóstru þeirra en hávær orðrómur um að Affleck hafi haldið fram hjá konunni sinni Jennifer Garner komst á kreik þegar þau hófu skilnaðarferli.

Úr því að talið barst að hátterni leikarans tók annar netverji til máls á sama þræði og sagði: „Hann káfaði einnig á brjóstunum á Hilarie Burton á TRL einhvern tíman. Allir gleymdu því þó.“Hilarie Burton, þekkt leikkona og fyrrverandi þáttastjórnandi á MTV, tók sjálf til máls á þræðinum og sagði „Ég hef ekki gleymt.“ Á sama vettvangi þakkar Burton fyrir stuðninginn og segist hafa verið mjög ung þegar þetta gerðist. Hún hafi á þeirri stundu þurft að hlæja til að fara ekki að gráta.

Hilarie Burton er þekkt fyrir að hafa leikið Peyton Sawyer í unglingaþáttaröðinni One Tree Hill og Söru Ellis í spennuþáttaröðinni White Collar. Þessi frétt er unninn upp úr frétt breska ríkisúvarpsins BBC.

Í spilaranum að neðan er myndskeið af atvikinu.


Tengdar fréttir

Harvey Weinstein rekinn

Í yfirlýsingu frá stjórn fyrirtækisins segir að í ljósi nýrra upplýsinga hafi sú ákvörðun verið tekin að segja Weinstein upp störfum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira