Umfjöllun og viðtöl: Valur - Tindastóll 69-73 | Stólarnir stálu sigrinum í lokin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Christopher Caird reynir að skora en Urald King ætlar sér að verja skotið hans.
Christopher Caird reynir að skora en Urald King ætlar sér að verja skotið hans. Vísir/Eyþór

Eftir að hafa verið undir á móti nýliðum Vals náðu Stólarnir frá Sauðárkróki að stela sigrinum og stigunum tveimur á loka metrunum í fyrsta leik annarar umferðar Dominos deildar karla í körfubolta sem fram fór í Valsheimilinu í kvöld.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir ofan.

Leikurinn byrjaði í raun hræðilega fyrir bæði lið, en mikið var um tapaða bolta á fyrstu metrunum og setti það tóninn fyrir leikinn. Hann einkenndist af misheppnuðum sendingum og skotum sem vildu ekki ofan í.

Valsmenn voru með yfirhöndina allan leikinn, og leiddu 38-28 í hálfleik. Þeir komust mest í 12 stiga forystu, en alltaf náðu Stólarnir að klóra sig til baka. Eftir að hafa verið tíu stigum undir fyrir fjórða og síðasta leikhluta þá komust gestirnir yfir með þristi frá Axel Kárasyni þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum.

Tindastóll gaf ekki forystuna eftir og sigruðu á endanum með 73 stigum gegn 67.

Afhverju vann Tindastóll?
Þeir gerðu taktískar breytingar í fjórða leikhluta og á sama tíma hættu Valsmenn að hitta, en þeir skoruðu aðeins fimm stig í síðasta fjórðungi á móti 19 frá Tindastól.

Þetta var svokallaður klassískur meistarasigur, spiluðu ekki vel en náðu að knýja fram úrslit.

Hverjir stóðu upp úr?
Antonio Hester dró vagninn fyrir Tindastól. Hann skoraði 31 stiga þeirra og leiddi liðið bæði í sókn og vörn. Sigtryggur Arnar Björnsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson áttu einnig ágætan leik fyrir gestina.

Hjá Valsmönnum stóðu Illugi Steingrímsson og Austin Magnus Bracey upp úr.

Hvað gekk illa?
Þristanýting Tindastóls var hræðileg í leiknum. Þeir voru oft á tíðum að fá galopin skot sem hreinlega fóru ekki ofan í. Á sama tíma var liðið mikið að tapa boltanum, sérstaklega í fyrri hálfleik, en það gerðu Valsmenn reyndar líka.

Tölfræði sem vekur athygli: Tindastóll hitti aðeins 20 prósent þriggja stiga skota sinna, eða sjö af 34 skotum.

Hvað gerist næst?
Valsmenn heimsækja Hött á Egilsstaði eftir viku á sama tíma og Tindastóll fær „granna“ sína frá Akureyri á Krókinn.

Valur – Tindastóll 69-73 (18-9, 38-28, 64-55, 69-73).

Valur:
Austin Magnus Bracey 16 stig/3 fráköst/2 stoðsendingar, Illugi Steingrímsson 14 stig/2 fráköst/1 stoðsending, Sigurður Dagur Sturluson 13 stig/3 fráköst/4 stoðsendingar, Urald King 9 stig/10 fráköst/3 stoðsendingar, Oddur Birnir Pétursson 9 stig/2 fráköst/1 stoðsending, Benedikt Blöndal 3 stig/1 frákast/6 stoðsendingar, Birgir Björn Pétursson 2 stig/4 fráköst.

Tindastóll: Antonio Hester 31 stig/13 fráköst/1 stoðsending, Sigtryggur Arnar Björnsson 15 stig/7 fráköst/1 stoðsending, Axel Kárason 10 stig/8 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9 stig/3 fráköst/1 stoðsending, Christopher Caird 6 stig/6 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 2 stig/4 fráköst/9 stoðsendingar.

Israel Martin, þjálfari Tindastóls Vísir/Eyþór

Israel Martin: Liðið getur bætt sig mikið

Þjálfari Tindastóls, Israel Martin, byrjaði á að gefa Valsmönnum heiður fyrir góða frammistöðu. „Þeir spiluðu vel og gerðu það líka á síðasta tímabili. Þeir eru nýtt lið með mikla orku á vellinum. Við munum ekki eiga neinn auðveldan leik á þessu tímabili.“

„Í síðasta leikhluta gerðum við taktíska breytingu sem virkaði. Við trúðum á vörnina okkar síðustu tíu mínúturnar og það réði að lokum úrslitum í leiknum,“ sagði Martin.

Liðið sýndi ekki sínar bestu hliðar, en Martin var nokkuð ánægður með liðið í heildina.

„Við erum með nokkra nýja leikmenn sem eru að breyta um hlutverk frá því á síðustu leiktíð. Við eigum mikla vinnu fyrir höndum en erum að vaxa sem lið með hverjum deginum og hverri æfingu.“

„Þetta lið getur bætt sig mikið, en það sem er mikilvegast er að við erum allir í þessu saman og erum að finna út úr því saman hvernig við förum að því að vinna leiki,“ sagði Israel Martin.

Ágúst getur verið ánægður með frammistöðu nýliðanna í dag Vísir/Eyþór

Ágúst: Bjartsýnn ef þetta er bætingin milli leikja

„Það er rosa lítið hægt að segja í rauninni, við köstum þessu bara frá okkur“ sagði Ágúst Sigurður Björgvinsson, þjálfari Vals.

Hans menn skoruðu aðeins fimm stig í síðasta leikhlutanum, sem gaf Tindastóli færi á að sækja sigurinn.

„Við erum yfir 61-44, svo við skorum bara átta stig á síðustu þrettán mínútunum eða eitthvað svoleiðis í leiknum, en við fengum fullt af opnum skotum, fengum meira að segja opin sniðskot, þetta bara vildi ekki niður hjá okkur.“

„Á meðan að einhvern veginn allt fór úrskeiðis í sókninni þá hrundi vörnin á sama tíma, sem hafði verið frábær í leiknum. Það var ekki sami kraftur í vörninni eins og hún var,“ sagði Ágúst.

Hann gat þó tekið margt jákvætt út úr leik sinna manna.

„Ef við ætlum að bæta okkur svona á milli leikja þá er ég bara mjög bjartsýnn á framhaldið. Við gerum okkur alveg grein fyrir okkar stöðu, við erum nýliðar í deildinni og þurfum að sanna okkur,“ sagði Ágúst Björgvinsson.

Sigtryggur Arnar Björnsso. Vísir/Eyþór

Sigtryggur Arnar: Gerðum það sem þeir vildu

„Við komum til að sækja tvö stig og við gerðum það,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, eftir leikinn.

„Við vorum ekki nógu agressívir á körfuna til að byrja með, í fyrstu þrem leikhlutunum,“ sagði Sigtryggur, aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis hjá Tindastól í dag. „Við vorum að skjóta allt of mikið fyrir utan, gera það sem þeir vildu að við gerðum, vorum ekki að hitta og þá þurftum við að bretya einhverju. Við byrjuðum að fara inn í teig og það gekk upp þá.“

Skotnýting Stólanna var vægast sagt hræðileg á köflum í leiknum, en samt voru þeir að fá nóg af góðum færum.

„Þetta eru opin skot, eitthvað sem við hittum úr vanalega, en ekki í dag.“

Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.