Enski boltinn

Upphitun: Stórleikur á Anfield │ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Enska úrvalsdeildin byrjar aftur að rúlla í dag eftir landsleikjahlé þegar áttunda umferðin hefst og veislan byrjar heldur betur með látum.

Stórliðin og erkióvinirnir í Liverpool og Manchester United mætast í hádeginu. Þessi lið hafa eldað grátt silfur saman í fjölda ára og valda leikir þeirra sjaldan vonbrigðum. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst hún klukkan 11:15.

Fimm leikir fara fram klukkan 14:00. Jóhann Berg Guðmundsson mætir aftur til leiks með Burnley, sjóðheitur eftir að hafa skorað eftirminnilega í báðum landsleikjum Íslands. Hans menn fá West Ham í heimsókn á Turf Moor.

Botnlið Crystal Palace á enn eftir að skora í deildinni á tímabilinu og er ekki sjálfgefið að þeir nái því í dag þegar Englandsmeistarar Chelsea mæta í heimsókn á Selhurst Park. Leikur Palace og Chelsea verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Topplið Manchester City getur hins vegar ekki hætt að skora. Þeir fá lið Stoke í heimsókn, en Stoke er í 13. sæti með átta stig og hafa unnið tvo leiki.

Nýliðar Huddersfield fara til Wales og heimsækja Swansea. Nýliðarnir fóru mjög vel af stað í deildinni, en hefur aðeins dvalað undan árangri þeirra, en þeir eru í 11. sæti með 9 stig að loknum sjö umferðum.

Tottenham fær svo Bournemouth í heimsókn á Wembley. Harry Kane hefur verið óstöðvandi í liði Tottenham að undanförnu og verður erfitt verkefni fyrir varnarmenn Bournemouth að reyna að stöðva hann.

Í lokaleik dagsins fær Watford svo Arsenal í heimsókn. Arsene Wenger og hans menn eru í fimmta sæti, jafnir Chelsea að stigum, með fjóra sigra og eitt jafntefli. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 16:30.

Upphitunarmyndband fyrir leiki dagsins má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Fallegt að spila á Anfield

Enski boltinn hefst á ný í dag eftir landsleikjahlé og verður byrjað á risaleik Liverpool og Man. Utd. Stjóri Utd óttast ekki háværa stuðningsmenn Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×