Innlent

Þjóðfylkingin dregur alla lista til baka: Undirskriftir margar með sömu rithönd

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Kom í ljós að margar undirskriftanna voru með sömu rithönd og að meirihluti þeirra sem haft var samband við af meðmælendalistanum í gær hafi ekki kannast við undirskrift sína.
Kom í ljós að margar undirskriftanna voru með sömu rithönd og að meirihluti þeirra sem haft var samband við af meðmælendalistanum í gær hafi ekki kannast við undirskrift sína. Vísir/Stefán
Íslenska þjóðfylkingin tilkynnti yfirkjörstjórnum í morgun að flokkurinn hefur dregið alla framboðslista sína til komandi þingkosninga til baka. RÚV greinir frá þessu.

Kjörstjórnirnar gerðu athugasemdir við meðmælendalista allra þriggja framboðslista flokksins en flokkurinn skilaði framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmi suður, Reykjavíkurkjördæmi norður og Suðvesturkjördæmi í gær. Kom í ljós að margar undirskriftanna voru með sömu rithönd og að meirihluti þeirra sem haft var samband við af meðmælendalistunum í gær hafi ekki kannast við undirskrift sína.

Flokkurinn sendi frá sér tilkynningu í morgun þess efnis að listarnir yrðu dregnir til baka. Fundað verður með umboðsmanni flokksins eftir hádegi.

Framboðsfrestur rann út á hádegi í gær. Níu flokkar munu bjóða fram í öllum kjördæmum í þingkosningunum en það eru Björt framtið, Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn. Alþýðufylkingin býður fram í báðum Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Dögun býður fram í Suðurkjördæmi.

Einungis smávægilegar athugasemdir voru gerðar við aðra lista og hefur verið bætt úr þeim málum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×