Viðskipti innlent

MS ætlar að breyta mysu í vín innan tveggja ára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Ný verksmiðja Heilsupróteins á Sauðárkróki verður vígð á laugardag.
Ný verksmiðja Heilsupróteins á Sauðárkróki verður vígð á laugardag.
Mjólkursamsalan (MS) og Kaupfélag Skagfirðinga stefna að framleiðslu á etanóli eða alkóhóli úr mjólkursykri mysu innan tveggja ára. Verður hún hluti af nýrri verksmiðju dótturfélags fyrirtækjanna tveggja á Sauðárkróki og nýtt til framleiðslu á vínanda, iðnaðarspíra og mögulega lífrænu eldsneyti. 

Ari Ewdald, forstjóri MS.
„Þær niðurstöður sem liggja fyrir lofa mjög góðu og við erum fullviss um að það verði af þessu verkefni. Þetta eru hátt í 2.500 tonn af þurrefni, eða sykri úr mysunni, á ári og það eru ýmsir möguleikar,“ segir Ari Edwald, forstjóri MS og stjórnarformaður dótturfélagsins Heilsupróteins ehf.

Etanólframleiðslan mun að sögn Ara nema um einni og hálfri milljón lítra á ári og í fyrstu að mestu seld öðrum fyrirtækjum til iðnaðarnota. Íslenskir áfengisframleiðendur geti þá þróað vörur úr alíslenskum spíra. MS hefur unnið að verkefninu síðan 2015 og meðal annars í samstarfi við Matís, Háskólann á Akureyri, danska tækniháskólann DTU og áfengisframleiðandann íslenska Foss Distillery.

Fréttablaðið fjallaði um hugmyndina í nóvember 2015. Kom þá fram að mesti ávinningurinn myndi fylgja framleiðslu á vínanda.

„Við sem að þessu stöndum teljum að það verði meginviðfangsefni mjólkuriðnaðarins á næstu áratugum að þróa frekari neytendavörur úr þessum hráefnum,“ segir Ari en próteinduft úr mysu verður framleitt í fyrsta áfanga verksmiðjunnar.

„Foss Distillery er aðalsamstarfsaðili okkar í etanólverkefninu og það er verið að skoða einnig vörur frá öðrum frumkvöðlum. Til dæmis verður í vígsluathöfn verksmiðjunnar boðið upp á mjólkurlíkjör frá fyrirtækinu Jöklu sem hefur þróað tvær tegundir af slíkum drykk. Um er að ræða fimmfalt meira magn af etanóli en notað er til áfengisframleiðslu á einu ári á Íslandi. Það eru ýmis tækifæri í vörumerkjum á neytendamarkaði en þetta mun skýrast fljótlega og verða tilbúið innan tveggja ára,“ segir Ari. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×