Markaveisla á Goodison Park | Vandræði Everton halda áfram

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Özil kemur Arsenal í 2-1
Özil kemur Arsenal í 2-1 vísir/getty
Everton er í fallsæti eftir níu umferðir í ensku úrvalsdeildinni en liðið tapaði enn einum leiknum í dag þegar Arsenal heimsótti Goodison Park.

 

Leikurinn fór þó vel af stað fyrir heimamenn því Wayne Rooney skoraði laglegt mark snemma leiks og kom Everton í 1-0.

 

Arsenal voru engu að síður talsvert betri aðilinn á vellinum og það skilaði jöfnunarmarki skömmu fyrir leikhlé þegar Nacho Monreal náði frákasti af skoti Granit Xhaka og dúndraði boltanum í netið. Staðan því jöfn í leikhléi.

 

Síðari hálfleikur var aðeins átta mínútna gamall þegar Mesut Özil minnti á sig með laglegu skallamarki eftir góðan undirbúning Alexis Sanchez.

 

Um stundarfjórðungi fyrir leikslok var svo komið að franska framherjanum Alexandre Lacazette en hann batt endahnútinn á góða sókn gestanna. Skömmu áður hafði Idrissa Gueye fengið að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

 

Aaron Ramsey negldi svo síðasta naglann í kistu Everton þegar hann skoraði á lokamínútu venjulegs leiktíma. 

 

Markaveislunni var þó alls ekki lokið því Oumar Niasse klóraði í bakkann fyrir Everton í uppbótartíma þegar hann nýtti sér barnaleg mistök Petr Cech. Enn var tími fyrir eitt mark í viðbót því Sanchez skoraði fimmta mark Arsenal á síðustu sekúndu leiksins.

 

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Everton sem er í 18.sæti deildarinnar með átta stig eftir níu leiki. Arsenal hinsvegar í 5.sæti með sextán stig.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira