Viðskipti innlent

Hlutabréfasala maka mátti skerða lífeyri

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi framkvæmd TR í samræmi við lög og lögin standast stjórnarskrá.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi framkvæmd TR í samræmi við lög og lögin standast stjórnarskrá. Vísir/Pjetur
Tryggingastofnun var heimilt að fella niður greiðslur til örorkulífeyrisþega vegna fjármagnstekna sem komu til vegna sölu maka viðkomandi á hlutabréfum. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur.

Málið á rætur að rekja til ársins 2015. Þá var áætlað að örorkulífeyrir til lífeyrisþegans yrði rúmar 190 þúsund krónur á mánuði. Þær greiðslur voru felldar niður í mars á þeim grundvelli að eiginmaður hennar hefði selt hlutabréf fyrir 12,7 milljónir. Þá var konan krafin um endurgreiðslu vegna ofgreidds lífeyris.

Í niðurstöðu dómsins segir að Alþingi hafi verið innan valdheimilda stjórnarskrárinnar þegar lögfest var ákvæði um að fjármagnstekjur maka skyldu koma til frádráttar við útreikning örorkubóta. Aðalkröfu konunnar, um ógildingu ákvörðunarinnar auk greiðslu bóta, og varakröfu um staðfestingu á því að óheimilt hafi verið að skerða greiðslunar, var því hafnað. 

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður konunnar, segir að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×