Viðskipti innlent

Félag Jóhannesar Rúnars seldi lögfræðiþjónustu fyrir 127 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Jóhannes Rúnar var formaður slitastjórnar Kaupþings.
Jóhannes Rúnar var formaður slitastjórnar Kaupþings.
Félag í eigu Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, fyrrverandi formanns slitastjórnar Kaupþings, skilaði samtals um 127 milljónum króna í tekjur í fyrra vegna seldrar lögfræðiþjónustu og jukust þær um tæplega 18 milljónir á milli ára.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi JRJ ehf. en hagnaður félagsins á síðasta ári nam 63 milljónum borið saman við hagnað upp á ríflega 50 milljónir króna árið 2015. Rekstrarkostnaður var að mestu vegna launa og aðkeyptrar þjónustu að fjárhæð samtals 42 milljónum. Eigið fé félagsins nam í lok síðasta árs 74 milljónum króna en á árinu 2016 greiddi Jóhannes Rúnar sér út 60 milljónir króna í arð. Ekki er áformað að greiða út arð á þessu ári vegna afkomu JRJ í fyrra.

Í kjölfar þess að slitabú Kaupþings lauk nauðsamningum í árslok 2015 færðist formlegt eignarhald á hendur kröfuhafa gömlu bankanna. Jóhannes Rúnar, sem hafði setið í skilanefnd og síðar slitastjórn Kaupþings allt frá upphafi slitameðferðar vorið 2009, tók þá sæti í fjögurra manna stjórn Kaupþings á fyrsta hluthafafundi hins nýja eignarhaldsfélags sem fór fram í mars2016. Þar var hann kjörinn í stjórn til tveggja ára og nam þóknun hans fyrir stjórnarsetuna 250 þúsund evrum, jafnvirði 32 milljóna króna á núverandi gengi, á ári. Í byrjun nóvember sama ár var hins vegar tilkynnt að Jóhannes Rúnar væri hættur í stjórn félagsins.

Jóhannes Rúnar var í hópi umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt fyrr á árinu og var á meðal fimmtán hæfustu umsækjenda samkvæmt matsnefnd dómsmálaráðherra. Hann var hins vegar ekki skipaður dómari við Landsrétt af ráðherra og í kjölfarið höfðaði hann mál gegn ríkinu. Í dómi Hæstaréttar 31. síðastliðinn var staðfest fyrri niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að vísa ógildingarkröfu Jóhannesar Rúnars frá dómi. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×