Erlent

Lögreglustjóri Katalóníu sakaður um uppreisnaráróður gegn spænska ríkinu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri Katalóníu.
Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri Katalóníu. Vísir/EPA
Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri í Katalóníu, verður færður fyrir dómara í Madrid vegna gruns um uppreisnaráróður gegn ríkinu. Er lögreglusveit hans, Mossos d‘Esquadra, sökuð um að brugðist þegar vernda þurfti spænsku lögregluna frá mótmælendum þann 1. október síðastliðinn.

Vitnisburður lögreglustjórans mun eiga sér stað við glæpadómstól Spánar í Madrid. Er lögregla Katalóníu sem fyrr segir sökuð um að bregðast skyldu sinni við að aðstoða spænsku lögregluna við að hafa hemil á þeim þúsundum mótmælenda sem hafa barist fyrir sjálfstæði Katalóníu. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

90% vildu sjálfstæði

Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda kaus með sjálfstæðu Katalóníu frá Spáni í atkvæðagreiðslu síðastliðna helgi. Jordi Turull, talsmaður ríkisstjórnar Katalóníu, tjáði fjölmiðlum ytra snemma að morgni mánudags 2. október að 90 prósent af þeim 2,26 milljónum Katalóna, sem greiddu atkvæði í kosningunum á sunnudag, hefðu kosið „já“.

Spænska lögreglan lokaði rúmlega 300 kjörstöðum síðastliðinn sunnudag og reyndi víða að fjarlægja kjörgögn. Hún lokaði til að mynda kjörstað í bænum Girona þar sem Charles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, átti að kjósa. Þá réðst hún inn á fjölda annara kjörstaða og hafði á brott með sér kjörkassa.

Þing Katalóníu hyggst koma saman á mánudag, þrátt fyrir að stjórnarskrárréttur Spánar hafi bannað það. Forseti Katalóníu hefur heitið því að þingið muni ræða sjálfstæðisyfirlýsingu á næstu dögum en en forsætisráðherra Spánar segir að slíkt myndi einungis valda meiri skaða.


Tengdar fréttir

Katalónar sjálfstæðir um eða eftir helgina

Katalónar ætla að lýsa yfir sjálfstæði þegar endanlegar niðurstöður kosninga sunnudagsins liggja fyrir. Yfirlýsing Spánarkonungs vekur reiði sjálfstæðissinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×