Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Valur 26-27 | Valur stal sigrinum í Garðabænum eftir spennandi lokamínútur.

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Það var hart barist í leiknum í kvöld.
Það var hart barist í leiknum í kvöld. vísir/ernir
Valur vann gríðalega sterkan sigur á Stjörnunni 26 - 27 eftir að hafa verið fjórum mörkum undir í hálfleik 16 - 12. Stjarnan fékk tækifæri á að jafna leikinn en skot Ramune Pekarskyte hafnaði í stönginni og Valur fagnaði vel sínum þriðja sigri í deildinni og eru nú á toppnum með 7 stig.

Leikurinn byrjaði að krafti og var fremur jafn fyrstu 10 mínúturnar en þá gáfu Stjörnu stúlkur í og náðu mest 6 marka forskoti. Sóknarleikurinn gekk illa hjá Val og Dröfn Haraldsdóttir var að verja vel í marki Stjörnunnar. Heimastúlkur nýttu sér það og náðu að keyra á Val og fóru inní hálfleikinn með 4 marka forystu, sanngjörn úrslit í hálfleik.

Það kom allt annað Vals lið út í seinni hálfleikinn, þær voru sterkar varnarlega, breyttu skipulagi sínu og fóru að keyra á vörn Stjörnunnar. Valur minnkaði forskot Stjörnunnar og náðu að jafna metinn í stöðinni 22 - 22 þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Fengu áhorfendur þá hörku spennandi loka mínútur sem að lokum skilaði Val sigri.

Af hverju vann Valur?

Valur vann seinni hálfleikinn og það skilaði þeim sigri. Eftir fyrri hálfleikinn áttu þær ekki skilið sigur en frábær endurkoma þeirra í seinni hálfleik skilaði þeim 2 stigum. Valur var grimmari í seinni hálfleik, varnarleikur Stjörnunnar hrundi og Valur fór að mæta þeim af krafti.

Hverjar stóðu uppúr?

Diana Satkauskaite átti góðan leik í liði Vals og skoraði 7 mörk. Kristín Arndís og Ragnhildur Edda voru á eftir henni með sitthvor fjögur mörkin. Rakel Dögg Bragadóttir var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með 6 mörk en Sólveig Lára og Brynhildur Kjartansdóttir með 5 mörk hvor. Einnig átti Dröfn Haraldsdóttir frábæran leik í marki Stjörnunnar.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik gekk Val illa að loka á agaðann sóknarleik Stjörnunnar. Valsstúlkur voru með of marga tapaða bolta og gáfu Stjörnunni mikið af dauðafærum. í seinni hálfleik skiptu liðin um hlutverk og hrundi varnarleikur Stjörnunnar þá. Samskiptaleysi og pirringur gerði það að verkum að þær fóru að fá á sig auðveld mörk.

Þorgerður Anna kom inn í sínum fyrsta leik, hún fann sig ekki í sókninni og komst ekki á blað. Það vita þó allir hvað hún getur og er það jákvætt fyrir Stjörnuna að hún sé komin inní liðið aftur. 

Hvað gerist næst?

Liðin mæta tveimur neðstu liðunum í næstu umferð. Valur fær Fjölni í heimsókn og Stjarnan sækir Gróttu heim. Erfiðari leikir bíða liðanna í 6. umferð þó þegar Stjarnan fer til Vestmannaeyja og mætir sterku liði ÍBV og Valur mætir þá Selfossi.

vísir/ernir
Halldór Harri: Maður kvartar alltaf þegar maður tapar

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur eftir leikinn.

„Mér fannst við eiga meira skilið en við vorum bara ekki nógu góðar í seinni hálfleiknum þar sem þetta var alltof mikið stöngin út hjá okkur, þetta er bara skita,“ sagði Halldór Harri.

„Það sem gerist er að þær fara að fá mikið af einföldum mörkum í upphafi seinni hálfleiks og það fer að koma fát á vörnina okkar og við vorum bara ekki að nýta færin okkar í sókninni, þar liggur munurinn. Valur er með hörku gott lið og það þýðir ekkert að vanmeta þær og halda að það séu auðveldir leikir á móti þeim.“

Stjarnan hefur verið að missa leikmenn frá vegna meiðsla og fyrir leikinn í dag var stórskyttan Ramune Pekarskyte tæp á að spila en Þorgerður Anna Atladóttir, sem hefur verið að glíma við meiðsli, var komin í hópinn og orðin leikfær. Ramune kom þó inn undir lokin og skilaði sínu en Þorgerður Anna fann sig ekki þær mínútur sem hún spilaði.

„Þetta var fyrsti leikur Þorgerðar, það þarf bara gefa henni tíma og hún mun verða góð. Ramune spilaði þennann leik á seiglunni og skilaði ágætis leik meðan hún var inná en auðvitað hefði ég viljað vera með fullt lið hérna í dag,“ sagði Halldór Harri sem segist taka margt jákvætt með sér úr leik dagsins, hann var ánægður með stelpurnar hvernig þær komu inní leikinn og vörnin var góð, þrátt fyrir að þær höfðum verið aðeins á hælunum í seinni hálfleik.

Stjarnan fékk dæmt á sig víti undir lok leiks og var Halldór Harri allt annað en sáttur við þann dóm.

„Maður kvartar alltaf þegar maður tapar, þeir dæma þennann leik og þannig er það bara. Það voru auðvitað atriði sem ég vildi meina að væru vitlaust en svona er bara boltinn.“

vísir/ernir
Ágúst: Það er sterkt að koma í Garðabæinn og taka tvö stig 

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var mjög ánægður með sigurinn og endurkomu sinna stelpna í seinni hálfleik. 

„Það er sterkt að koma hérna í TM-höllina og sækja tvö stig. Við vorum í vandræðum framan af í leiknum, vorum slakir í fyrri hálfleik og gerðum mikið af tæknifeilum og fengum þá mikið af hraðaupphlaupum í bakið. Við löguðum þetta í seinni hálfleik og það munaði um það,“ sagði Ágúst Þór.

Valur var komið 6 mörkum undir í fyrri hálfleik og fóru stelpurnar inní hálfleikinn í stöðunni 16-12. Ágúst segir að hann hafi lítið öskrað á þær en endurskipurlagði leik þeirra.

„Það voru svo sem engin læti í hálfleik. Við endurskipulögðum okkur aðeins, fórum að spila með yfirtölu 7 á móti 6 sem reyndist vel og við skoruðum mörg auðveld mörk þá. Pressan var komin á Stjörnuna og þá fór varnarleikurinn að þéttast hjá okkur,“ sagði Ágúst.

„Það er auðvitað sterkt að taka þessi tvö stig hérna en það er margt sem við getum lagað og það má segja að við höfum verið heppnar að hafa bara verið fjórum mörkum undir í hálfleik miðað við hvernig leikurinn þróaðist,“ sagði Ágúst sem er bjartsýnn á framhaldið hjá Val.

„Við tökum alltaf bara einn leik í einu og höfum lágan prófíl. Við erum afslöppuð, okkur líður vel og liðsheildin er góð. Þetta hefur gengið vel hjá okkur núna en vitum að þurfum að hafa gríðalega mikið fyrir þessu.“

Rakel Dögg: Þetta er ömurlegt og mér líður hræðilega

Rakel Dögg Bragadóttir, leikmaður Stjörnunnar, þurfti smá tíma áður en hún kom í viðtal en hún var ansi svekkt eftir að hafa tapað leiknum niður í kvöld.

„Þetta er ömurlegt og mér líður hræðilega eftir þennann leik. Það er glatað að tapa hérna á heimavelli leik sem við eigum að klára,“ sagði Rakel Dögg, sem segir varnarleikinn hafa skemmt fyrir í dag. 

„Það sem gerist í seinni hálfleik er bara númer 1, 2 og 3 dettum við niður í varnarleiknum, við erum ekki að nýta dauðafærin okkar nógu vel en fyrst og fremst er þetta varnarleikurinn. Við þurfum að spila 60 mínútur af góðri vörn ekki bara 30.  Fyrri hálfleikurinn var mjög góður hjá okkur þar sem við vorum aggresívar og náðum að teygja vel á vörninni þeirra, náðum hraðaupphlaupum og spiluðum góðan varnarleik en síðan var bara allt lélegt í seinni hálfleik. Við þurfum bara að einblína á það góða í fyrri hálfleiknum og taka það með okkur í næsta leik.“

Eins og fram hefur komið var Stjarnan ekki með sitt sterkasta lið í dag og segir Rakel það auðvitað skipta máli en að það sé engin afsökun. 

„Það hefur auðvitað áhrif þegar mikilvægir leikmenn eru að glíma við meiðsli eins og Ramune átti hreinlega ekki að spila í dag. Þetta var fyrsti leikurinn hjá Toggu og Brynhildur er líka tæp, auðvitað telur þetta en ég ætla ekki að finna afsakanir við eigum bara að vera sterkara lið en þetta,“ sagði Rakel.

„Maður er aldrei 100% sáttur við alla dóma. Ég ýtti aðeins í hana en hún gerði það sama við mig í fyrri hálfleik og hélt þá að línan væri þarna en því var greinilega breytt,“ sagði Rakel en hún var ósátt með dómarann eftir að hún fékk tvisvar sinnum brottvísum eftir brot á Díönu Dögg Magnúsdóttur.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í TM-höllinni í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

Stelpurnar hans Halldórs Harra hafa byrjað tímabilið illa.vísir/ernir
Ágúst var að vonum sáttur með stigin tvö.vísir/ernir
Rakel Dögg skoraði sex mörk.vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira