Erlent

Trump gefur í skyn samning við demókrata um sjúkratryggingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýjasta útspil Trump er ólíklegt að bæta samband hans við leiðtoga repúblikana í þinginu.
Nýjasta útspil Trump er ólíklegt að bæta samband hans við leiðtoga repúblikana í þinginu. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti ýjaði að því í Twitter í morgun að hann gæti tekið höndum saman við demókrata í Bandaríkjaþingi um að semja nýtt frumvarp um sjúkratryggingar. Stirt hefur verið milli Trump og leiðtoga repúblikana í þinginu að undanförnu.

Hvorki hefur gengið né rekið hjá repúblikönum að afnema Obamacare, heilbrigðistryggingalögin sem kennd eru við Barack Obama, þrátt fyrir að það hafi verið þeirra helsta stefnumál um árabil.

Hefur þeim trekk í trekk mistekist að semja frumvarp sem jafnt harðlínumenn sem hófsamari þingmenn hafa getað sameinast um.

Þetta hefur valdið spennu í samskiptum Trump við Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeild þingsins. Ekki er langt síðan að Trump tilkynnti að hann hefði náð samkomulagi við leiðtoga demókrata um að hækka skuldaþak bandaríska ríkisins og fjármagna rekstur alríkisstjórnarinnar, þvert á vilja leiðtoga repúblikana.

Ef eitthvað er að marka tíst Trump virðist Schumer ekki hafa hafnað samstarfstillögunni algerlega.Vísir/AFP
Nú segir Trump að hann gæti endurtekið þann leik með sjúkratryggingakerfið. Í tísti í morgun sagðist hann hafa rætt við Chuck Schumer, leiðtoga minnihluta demókrata í öldungadeildinni, til að kanna hvort að demókratar hefðu áhuga á að vinna með honum að „frábæru sjúkrafrumvarpi“.

„Hver veit!“ tísti Trump.

Schumer og félagar hafa fram að þessu verið mótfallnir tilraunum repúblikana til að afnema og skipta Obamacare út fyrir önnur lög, að sögn Washington Post.

Schumer og fleiri demókratar hafa aftur á móti sagst reiðubúnir að vinna með Trump og öðrum repúblikönum að því að sníða vankanta af Obamacare.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×