Erlent

Segir skeytingarleysi Trump geta leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/GEtty
Öldungadeildarþingmaðurinn Bob Corker segir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, haga sér í embætti eins og hann sé í raunveruleikaþætti og að skeytingarleysi hans gæti leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar. Trump hefur gagnrýnt þingmanninn á Twitter og Corker segist hafa verulegar áhyggjur af skapgerð forsetans.

„Hann ætti að valda áhyggjum hjá öllum sem er annt um þjóðina okkar.“

Deilur þeirra, sem munu líklega gera forsetanum erfiðara að koma málum sínum í gegnum þingið, byrjuðu í gær þegar Trump sagði í tísti að Corker hefði „grátbeðið“ Trump um að styðja framboð sitt í Tennessee og að Trump hafi neitað og sagði forsetinn einnig að þingmaðurinn, sem studdi forsetaframboð Trump frá upphafi, væri huglaus.

Því hafi Corker hætt við að bjóða sig fram því hann gæti ekki unnið án stuðnings forsetans.

Í tístum sínum sagði Trump einnig að Corker, sem er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar, hefði beðið Trump um að tilnefna sig í embætti utanríkisráðherra en því hefði hann neitað. Þá bæri Corker ábyrgð á „hinu hræðilega“ kjarnorkusamkomulagi við Íran.

Auk Bandaríkjanna komu Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland að samkomulaginu við Íran sem snýr að takmörkunum á kjarnorkuáætlun Írana í stað fyrir afnám viðskiptaþvingana.

Trump sagðist þess vegna búast við því að Corker yrði neikvæður gagnvart Trump á næstunni og að hann myndi reyna að standa í vegi fyrir ætlunum forsetans.

Corker svaraði forsetanum á Twitter og sagði það „synd að Hvíta húsið væri orðið dagvistun fyrir fullorðna“ og að greinilegt væri að einhver hefði ekki mætt á vakt sína.

Trump vildi þó ekki sætta sig við að það yrðu lokaskotin í Twitter-bardaga þeirra og hélt gagnrýni sinni áfram, sem að þessu sinni beindist að vissu leyti einnig að öðrum þingmönnum Repúblikanaflokksins.

„Bob Corker gaf okkur Íran-samkomulagið, og þá er það upptalið. Við þurfum heilbrigðisþjónustu, við þurfum skattalækkanir/endurbætur, við þurfum fólk sem kemur hlutunum í verk,“ sagði Trump á Twitter.

Í viðtali við New York Times (Paywall) segir Corker það ekki vera rétt að hann hafi beðið Trump um stuðning. Þess í stað hafi Trump beðið Corker um að bjóða sig fram aftur og lofað stuðningi sínum. Corker hafi hins vegar neitað.

Þá segist Corker líta á forsetann sem stjórnmálalegan-viðvaning sem haldi að hann sé enn í raunveruleikasjónvarpi. Þá segist hann vita til þess að starfsmenn Hvíta hússins þurfa að leggja mikið á sig til að vernda forsetann fyrir sjálfum sér og halda aftur af honum.

Hann sagði Trump hafa margsinnis grafið undan viðræðum utanríkis Bandaríkjanna með vanhugsuðum yfirlýsingum á Twitter. Nýjasta dæmið væri yfirlýsing hans um aðgerðir Rex Tillerson, utanríkisráðherra, varðandi Norður-Kóreu. Tíst Trump hefði skaðað Bandaríkin.

Corker sagðist einnig vita til þess að nærri því hver einasti þingmaður Repúblikanaflokksins deildi áhyggjum hans af Trump.

„Sko, fyrir utan nokkra aðila, skilur stór meirihluti okkar hvað við þurfum að eiga við. Þeir skilja hviklyndið sem við eigum við og þá miklu vinnu sem nánustu starfsmenn hans þurfa að vinna til að halda honum á veginum,“ sagði Corker.

Þingmaðurinn sagði í viðtalinu að þeir Rex Tillerson, Jim Mattis, varnarmálaráðherra, og John F. Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, væru að gera sitt besta til að tala Trump niður og róa hann. Það væri mjög mikilvægt.

Þá sagði Corker einnig að hann teldi tíst Trump vera til marks um nokkurs konar getuleysi.

„Ég veit ekki af hverju forsetinn tístir hlutum sem eru ósannir. Þið vitið að hann gerir það, allir vita að hann segir ósatt, en hann gerir það bara.“

Corker vildi ekki svara þeirri spurningu hvort hann teldi Trump hæfan til að sinna embætti forseta Bandaríkjanna. Hins vegar sagðist hann telja að Trump áttaði sig ekki á veldi embættisins.

„Ég held að hann átti sig ekki á því að þegar forseti Bandaríkjanna talar og segir þá hluti sem Trump segir, hafi það áhrif um allan heiminn. Sérstaklega á þeim svæðum sem hann tjáir sig um. Þannig að, já, ég hef áhyggjur af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×