Innlent

Íslendingar geta vænst þess að vinna lengst í Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ungt fólk á Íslandi getur vænst þess að vinna í hátt í hálfa öld.
Ungt fólk á Íslandi getur vænst þess að vinna í hátt í hálfa öld. Vísir/Vilhelm
Væntanleg starfsævi á Íslandi er 47,4 ár. Það er rúmum tólf árum lengur en íbúar Evrópusambandsríkja geta vænst að vinna yfir ævina og fimm árum lengur en í Sviss.

Rannsókn Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, byggist á gögnum um lífslíkur og atvinnuþátttöku í aðildarríkjunum og fimm öðrum ríkjum, þar á meðal Íslandi. Út frá þeim tölum er reiknað út hversu lengi fólk sem er 15 ára gamalt getur vænst þess að vera á vinnumarkaði um ævina.

Í Evrópusambandsríkjunum hefur vænt starfsævi lengst um 1,8 ár síðasta áratuginn. Í fyrra gátu íbúar álfunnar vænst þess að vinna í 35,6 ár að meðaltali.

Starfsævi kvenna lengist meira þar en karla. Hún reyndist 33,1 ár í fyrra borið saman við 30,6 ár árið 2006.

Tyrkir og Ítalir eiga stysta starfsævi í vændum

Næstlengst geta íbúar Sviss vænst þess að vinna um ævina eða 42,4 ár. Öll Norðurlöndin eru fyrir ofan meðaltal Evrópusambandsríkjanna. Svíar geta vænst þess að vinna þjóða lengst innan sambandsins, 41,3 ár. Danir koma á eftir þeim með 40,3 ár og Norðmenn með 39,6 ár.

Finnar voru einnig fyrir ofan meðaltalið ásamt Hollendingum, Bretum, Þjóðverjum, Eistum, Portúgölum og Austurríkismönnum.

Stysta væntanlega starfsævin reyndist vera í Tyrklandi. Þar getur ungt fólk aðeins vænst þess að vinna í 28,5 ár yfir ævina. Innan Evrópusambandsins reka Ítalir lestina með 31,2 ár, heilum 16,2 árum skemur en Íslendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×