Handbolti

„Aron Pálmarsson er töframaður sem gerir hluti sem aðrir geta ekki gert“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson er ekki að spila handbolta þessa dagana.
Aron Pálmarsson er ekki að spila handbolta þessa dagana. vísir/getty
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður Íslands í handbolta, er ekki að spila handbolta þessa dagana en hann var í lok júlí rekinn frá ungverska stórliðinu Veszprém sem ætlar einnig að höfða mál gegn honum.

Aron gerði í sumar samning við spænska risann Barcelona frá og með næstu leiktíð en hann vill komast þangað strax og skrópaði á fyrstu æfingu Veszprém eftir sumarfrí. Ungverjarnir vilja eina milljón evra fyrir Aron sem Börsungar virðast ekki ætla að borga.

Á meðan þetta leiðinda mál er í gangi getur Aron ekki spilað handbolta sem eru auðvitað skelfileg tíðindi fyrir íslenska landsliðið. Strákarnir okkar eiga fyrir höndum þrjá erfiða leiki á EM í Króatíu í janúar á næsta ári þar sem væri gott að njóta krafta besta handboltamanns þjóðarinnar.

Svo virðist sem unnendur handboltands og sérstaklega Meistaradeildarinnar munu ekki fá að sjá Aron í bráð en hann hefur verið einn besti leikmaður heims undanfarin ár og tvívegis verið valinn besti leikmaður úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.

Xavi Sabaté þjálfaði Aron hjá Veszprém.vísir/getty

Vonandi leysist málið

Einn þeirra sem saknar þess að sjá Aron á vellinum er Spánverjinn Xavi Sabaté sem þjálfaði Aron hjá Veszprém en undir stjórn Sabaté komst liðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra og aftur í undanúrslitin í ár.

Sabaté hætti með Veszprém og ungverska landsliðið fyrr á árinu en hann býr í Búdapest og er að hvíla sig, að hans sögn, áður en hann fer í nýtt starf. Sabaté er mikill aðdáandi Arons.

„Því miður er Aron ekki að spila. Vonandi leysist þetta mál fljótt því ég elska handbolta og ég elska að sjá þá bestu spila handbolta. Það vilja allir sjá Aron spila. Ég veit ekki meira um málið en það sem stendur í blöðunum hérna úti. Það er þessi samningur við Barcelona en hann á eitt ár eftir hjá Veszprém. Hann vill samt ekki spila lengur fyrir Veszprém þannig vonandi komst menn að samkomulagi,“ segir Xavi Sabaté í viðtali við Vísi.

„Þetta er mikil synd vegna þess að fyrir mér er Aron besti sóknarmaður heims. Ég vil sjá hann spila því hann gerir hluti sem aðrir geta ekki gert á vellinum.“

Aron Pálmarsson er einn besti leikmaður heims.vísir/getty

Gerir þá bestu enn betri

Sabaté var fyrst aðstoðarþjálfari Veszprém en fékk starfið óvænt upp í hendurnar í byrjun tímabils 2015. Hann vann með Aroni í tvö ár og kann vel við íslenska landsliðsmanninn.

„Það var mikil ánægja að þjálfa hann og aðra bestu leikmenn heims. Við vorum með frábært lið, fullt af frábærum leikmönnum en það var enginn eins og Aron. Hann gerir einstaka hluti. Hann er líka mjög almennilegur strákur og mikill fagmaður. Ég átti alltaf í góðu sambandi við hann,“ segir Sabaté sem vill meina að Aron hafi bætt sig mikið eftir komuna frá Kiel.

„Liðið bætti sig mikið síðustu tvö árin og sjálfur bætti Aron sig mikið eins og til dæmis í varnarleiknum. Hann kom frá Kiel í Þýskalandi þar sem hlutirnir eru öðruvísi. Ekki betri eða verri heldur öðruvísi. Hann kom til Veszprém með ákveðinn stíl en með tímanum fór hann að skilja leikinn betur og verða betri og betri leikmaður. Hann er núna leikmaður sem gerir bestu leikmenn heims enn þá betri þegar að þeir spila með honum.“

Verður Ísland án Arons í janúar?vísir/getty

Væri heiður að þjálfa Aron aftur

Sabaté segist njóta sín í fríinu en hann er að hlaða batteríin eftir annasama leiktíð þar sem hann fór með Veszprém alla leið í öllum keppnum auk þess sem hann stýrði Ungverjalandi á HM í Frakkklandi.

„Það var góð reynsla fyrir mig að þjálfa bæði félagslið og landslið. Það var líka gaman vegna þess að það gekk vel. Nú er ég klár í nýtt verkefni með félagsliði eða landsliði,“ segir Sabaté, en myndi hann hafa áhuga á að taka við íslenska landsliðinu í framtíðinni?

„Það væri mér heiður og þá sérstaklega til að vinna aftur með Aroni. Aron er algjör töframaður og allir þjálfarar heims myndi vilja þjálfa Aron Pálmarsson. Auðvitað myndi ég vilja vinna með honum aftur. Vonandi fer hann bara sem fyrst út á völlinn aftur,“ segir Xavi Sabaté.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×