Enski boltinn

Þurfti engan aðlögunartíma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Álvaro Morata hefur skorað sex mörk í fyrstu sex deildarleikjum Chelsea á tímabilinu.
Álvaro Morata hefur skorað sex mörk í fyrstu sex deildarleikjum Chelsea á tímabilinu. vísir/getty
Álvaro Morata skoraði þrennu þegar Chelsea vann öruggan 0-4 útisigur á Stoke City á laugardaginn. Það var spænsk stemmning á bet365 vellinum því landarnir Morata og Pedro skoruðu öll fjögur mörk Chelsea sem er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Morata hefur ekki þurft neinn aðlögunartíma á Englandi. Í sex deildarleikjum með Chelsea hefur spænski landsliðsframherjinn skorað sex mörk og gefið tvær stoðsendingar.

Morata var keyptur frá Real Madrid til að fylla skarð Diegos Costa sem er farinn aftur til Atlético Madrid. Þeir eru gjörólíkir leikmenn en Morata hefur sýnt að hann er enginn eftirbátur hins geðstirða Costa.

Stóru málin eftir helgina í enska boltanum

Stærstu úrslitin

Everton vann afar kærkominn og mikilvægan sigur á Bournemouth á Goodison Park. Everton var komið í öngstræti og staða Ronalds Koeman orðin ótrygg. Senegalski framherjinn Oumar Niasse skoraði bæði mörkin og kom Everton til bjargar.

Hvað kom á óvart?

Í fyrstu tveimur heimaleikjum sínum á tímabilinu vann Stoke Arsenal og gerði jafntefli við Manchester United. Strákarnir hans Marks Hughes fengu hins vegar á baukinn gegn Englandsmeisturum Chelsea á laugardaginn. Stoke er aðeins með fimm stig eftir fyrstu sex umferðirnar.

Mestu vonbrigðin

Það var kannski ekki líklegt að Crystal Palace fengi mikið út úr leiknum gegn Manchester City en 5-0 tap var samt áfall. Palace er í skelfilegri stöðu; án stiga og ekki enn búið að skora mark. Palace er eina liðið í bestu fimm deildum Evrópu sem á enn eftir að skora á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Kominn úr frystikistunni

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton unnu afar kærkominn sigur á Bournemouth um helgina. Hetja Everton var senegalski framherjinn Oumar Niasse sem virtist ekki eiga sér neina framtíð hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×