Erlent

Fyrrverandi þingmaður demókrata í fangelsi fyrir að áreita unglingsstúlku

Kjartan Kjartansson skrifar
Verjendur Weiner báru því við að hann þjáðist af fíkn. Ítrekuð klámfengin samskipti hans við konur á samfélagsmiðlum bundu enda á stjórnmálaferil hans.
Verjendur Weiner báru því við að hann þjáðist af fíkn. Ítrekuð klámfengin samskipti hans við konur á samfélagsmiðlum bundu enda á stjórnmálaferil hans. Vísir/AFP
Anthony Weiner, fyrrverandi þingmaður Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, var dæmdur í 21 mánaðar fangelsi í dag fyrir að senda fimmtán ára gamalli stúlku kynferðisleg skilaboð.

Samskipti Weiner og stúlkunnar áttu sér stað á samfélagsmiðlum frá janúar fram í mars í fyrra. Weiner er sjálfur 53 ára gamall. Áður hafði stjórnmálaferill hans endað vegna uppljóstrana um að hann hefði sent konum myndir af kynfærum sínum.

Weiner bað stúlkuna um að senda sér nektarmyndir og að framkvæma kynferðislegar athafnir fyrir hann á Skype og Snapchat. Saksóknarar fullyrtu að hann hafi haft fulla vitneskju um aldur stúlkunnar, að því er segir í frétt CNN.

Auk fangelsisdómsins ákvað dómari í New York að hann skyldi sæta eftirliti í þrjú ár eftir að honum verður sleppt. Weiner viðurkenndi sekt í málinu fyrr á þessu ári.

Hafði áhrif á forsetakosningarnar

Rannsóknin á máli Weiner hafði óbein áhrif á forsetakosningarnar vestanhafs í fyrra. Weiner var giftur Humu Abedin, einum nánasta ráðgjafa Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata.

Alríkislögreglumenn fundu tölvupósta Abedin á tölvu Weiner og opnuðu í kjölfarið aftur rannsókn á tölvupóstum Clinton frá þeim tíma sem hún var utanríkisráðherra. Þeirri rannsókn hafði áður lokið með því að engin ákæra var gefin út.

James Comey, þáverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI, tilkynnti aðeins nokkrum dögum fyrir kjördag að rannsóknin á tölvupóstum Clinton hefði verið opnuð aftur. Stjórnmálaskýrendur hafa gert að því skóna að sú tilkynning hafi spillt fyrir framboði Clinton. Ekkert kom út úr rannsókninni á póstunum á tölvu Weiner hvað varðaði Clinton.


Tengdar fréttir

Weiner játar að hafa sent táningi óviðeigandi myndir

Anthony Weiner, fyrrverandi þingmaður demókrata og eiginmaður eins helsta ráðgjafa Hillary Clinton í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, mun játa sök í enn einu kynlífshneykslismálinu sem tengist honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×