Innlent

Strætó dæmt til að greiða 100 milljónir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Útboðið kemur til með að kosta Strætó bs. hundruð milljóna.
Útboðið kemur til með að kosta Strætó bs. hundruð milljóna. vísir/ernir
Strætó bs. var síðastliðinn fimmtudag dæmt til þess að greiða Allrahanda GL. ehf. 100 milljónir króna í skaðabætur vegna ólögmæts útboðs af hálfu Strætó. Fyrr í sumar hafði bótaskylda Strætó gagnvart Teiti Jónassyni ehf. verið viðurkennd en bótafjárhæð í því máli liggur ekki fyrir.

Málið varðaði lokað útboð á akstri strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Útboðið fór fram í upphafi árs 2010. Á endanum var samið við Hagvagna hf. og Kynnisferðir ehf. Síðar kom í ljós að vagnar Hagvagna uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum og að Hagvögnum voru afhentir vagnar til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Bæði Allrahanda og Teitur Jónasson töldu að meginreglur útboðsréttar hefðu verið brotnar og höfðuðu mál til greiðslu bóta vegna hagnaðarmissis. Líkt og áður segir var bótaskylda Strætó gagnvart Teiti viðurkennd fyrr í sumar.

Upphaflega hafði Allrahanda krafist tæpra 530 milljóna í bætur samkvæmt mati dómkvadds matmanns. Yfirmatsmenn mátu tjón félagsins aftur á móti rúmar 289 milljónir. Héraðsdómur mat tjónið hins vegar 100 milljónir að álitum og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×