Enski boltinn

Sakar Alexis Sanchez um að svindla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez í leiknum í gær.
Alexis Sanchez í leiknum í gær. Vísir/Getty
Tony Pulis, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, var frekar pirraður eftir 2-0 tap hans manna á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Pulis lét Sílemanninn Alexis Sanchez heyra það og taldi að dómari leiksins hafi sleppt augljósri vítaspyrnu í stöðunni 0-0.

„Í fyrstu aukaspyrnu leiksins þá lét Sanchez sig falla og hefði átt að fá gula spjaldið. Þetta kallast að svindla,“ sagði Tony Pulis við Sky Sports eftir leikinn.

„Svo er Jay tæklaður í teignum og það á að vera pottþétt víti,“ sagði Pulis. Jay Rodriguez hélt áfram, stóð upp og átti skot sem Petr Cech varði í stöngina.

Alexis Sanchez  fiskaði augljóslega aukaspyrnuna með því að fara niður þegar hann fann snertinguna en Jay Rodriguez lét ekki brot í teignum stoppa sig og hélt áfram.  Það er því kannski ekkert skrýtið að Pulis hafi borið þessi atvik saman í viðtali eftir leik.

„Við erum að segja okkar leikmönnum að rúlla ekki um völlinn og hann vildi skora. Um leið og hann klikkaði þá átti dómarinn að beita hagnaðarreglunni. Þetta átti alltaf að vera víti og þeir gátu líka um leið misst mann af velli með rautt spjald. Við hefðum því ekki aðeins skorað mark heldur einnig verið ellefu á móti tíu,“ sagði Pulis.

Tony Pulis tapaði þarna í ellefta skiptið í röð á útivelli móti Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×