Viðskipti innlent

Eignir Azazo kyrrsettar og fyrirtækið í gjörgæslu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Brynja Guðmundsdóttir hafnar öllum ásökunum stjórnar Azazo og segir uppsögn sína ólögmæta.
Brynja Guðmundsdóttir hafnar öllum ásökunum stjórnar Azazo og segir uppsögn sína ólögmæta. Vísir/GVA
Hugbúnaðarfyrirtækið Azazo, sem er meðal annars í eigu lífeyrissjóða og áhættufjárfestingarsjóðs í eigu íslenska ríkisins, rambar á barmi gjaldþrots. Eignir þess hafa verið kyrrsettar að beiðni fyrrverandi forstjóra og stofnanda Azazo sem hefur stefnt félaginu fyrir dómstóla eftir að ráðningarsamningi hennar var rift í kjölfar mikilla deilna á milli hennar og stjórnarmanna.

„Félagið stendur mjög illa. Þetta er löng saga í samskiptum á milli stofnanda og stjórnar í gegnum tíðina sem hefur ekki gengið átakalaust fyrir sig,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Azazo og fulltrúi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA), áhættufjárfestingarsjóðs í eigu íslenska ríkisins, í stjórn fyrirtækisins.

Ráðningarsamningi Brynju Guðmundsdóttur, stofnanda Azazo og næststærsta hluthafa, var rift 6. júlí síðastliðinn og henni samstundis fylgt út úr húsakynnum fyrirtækisins í Hafnarfirði. Velta Azazo á fyrri helmingi ársins hafði þá lækkað um 33 prósent samanborið við sama tímabil í fyrra og fjárhagsstaðan versnað umtalsvert. Fyrirtækið var rekið með 633 milljóna króna tapi í fyrra en hagnaðist um 221 milljón árið 2015.

Tapið í fyrra má að mestu leyti rekja til samdráttar í tekjum, hækkunar launa- og annars rekstrarkostnaðar, en aðallega þess að óefnislegar eignir rýrnuðu í virði um 565 milljónir. Var þar um að ræða þróunarkostnað við hugbúnaðinn CoreData sem var færður niður eftir að fyrirtækið missti einn sinn stærsta viðskiptavin, slitastjórn Glitnis, síðar Glitnir HoldCo, um mitt þetta ár. Samkvæmt ársreikningi Azazo fyrir 2016 stóð sala á þjónustu til Glitnis undir um helmingi af heildarveltu árin 2015 og 2016.

Höfuðstöðvar Azazo í Bæjarhrauni í Hafnarfirði.
Skuldsetti sig í botn til að bjarga fyrirtækinu

Samkvæmt Brynju, sem stofnaði Azazo fyrir tíu árum, hafði samstarf hennar og stjórnarmanna fyrirtækisins gengið illa allt frá hausti 2014. Hún hafi farið fram á kyrrsetningu eigna þess þann 14. september, sex dögum fyrir aðalfund, vegna launakröfu sem hún eigi upp á 65 milljónir króna. Kyrrsetningunni verði ekki aflétt á meðan engin svör fáist varðandi kröfuna.

„Það voru samskiptaörðugleikar og trúnaðarbrestur en ég var með bundinn ráðningarsamning til 31. ágúst 2018. Hann var svo staðfestur af stjórn í desember í fyrra eftir að ég gaf eftir launakröfu sem ég átti á fyrirtækið. Ég er eini hluthafinn með ábyrgðir, það er að segja í ábyrgð fyrir yfirdráttarskuld fyrirtækisins, og ég er búin að reyna ítrekað síðustu ár að fá stjórnina til að losa mig undan henni eða að aðrir hluthafar beri þær byrðar með mér. Þegar samningnum var rift fékk ég ekki greitt uppsafnað orlof eða þá daga sem ég hafði unnið í júlí. Ég tók tugi milljóna króna í lán og setti inn í fyrirtækið, og skuldsetti mig í botn til að bjarga því, og hef hafnað öllum ásökunum stjórnarinnar og tel uppsögnina ólögmæta,“ segir Brynja.

Núverandi stjórn Azazo var kjörin á hluthafafundi félagsins þann 27. júlí síðastliðinn áður en aðalfundur var haldinn 20. september. NSA á 17,1 prósents hlut í fyrirtækinu og Core Invest, félag Brynju, fjórtán prósent. Auður 1 fagfjárfestasjóður, í eigu lífeyrissjóða og fagfjárfesta, á 13,9 prósent en samtals eru hluthafar 43 talsins. Í þeim hópi eru einnig núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Azazo en fyrirtækið hefur undanfarna mánuði þurft að ráðast í uppsagnir í ljósi stöðunnar. Hefur starfsmannafjöldinn af þeim sökum farið úr um fimmtíu niður í um tuttugu. Starfsfólk hefur verið upplýst um stöðuna og var hlutafé fyrirtækisins í síðustu viku lækkað úr 60 milljónum að nafnvirði í fjórar.

Stjórn Azazo telur Brynju hafa haldið eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu fyrirtækisins og fegrað bókhald þess. Ákvörðun hennar um að fara fram á kyrrsetningu eigna hafi síðan fælt í burtu fjárfesta sem hafi verið tilbúnir til að leggja fjármagn inn í félagið. 

„Við tökum við sem funkerandi starfsstjórn yfir fyrirtæki sem stendur ekki vel. Við erum með fyrirtækið í gjörgæslu en það er erfitt fyrir okkur að fara út í smáatriðin,“ segir Friðrik.

Á hluthafafundinum 27. júlí var samþykkt að gefa út skuldabréf fyrir allt að 100 milljónum króna í þeim tilgangi að styrkja fjárhag Azazo og treysta rekstrarhæfi. Skuldabréfa­útgáfan stendur að sögn Friðriks enn yfir og gengur þokkalega. Aftur á móti þarf hún að klárast fyrir októberlok ef fyrirtækið á að ná að standa við sínar lágmarks skuldbindingar.

„Þegar hluthafafundurinn var haldinn í júlí var félagið komið í strand. Menn hafa verið að rifa seglin þannig starfsfólki fækkar um hver mánaðamót,“ segir Friðrik og svarar að NSA hafi ekki tekið ákvörðun um hvort sjóðurinn muni fjárfesta frekar í Azazo. Hann hafi ekki á reiðum höndum hversu mikla fjármuni NSA hefur sett inn í fyrirtækið.

Ólöglega boðað til fundarins

„Ég vil meina að þessi hluthafafundur í júlí hafi verið ólöglega boðaður og þar var kjörin ný stjórn. Þar var mér úthúðað og stjórnin þóttist koma af fjöllum eins og þau vissu ekki hver staðan væri á fyrirtækinu. Á aðalfundi félagsins í síðustu viku, eftir að ég kyrrsetti eigur félagsins, var ég sökuð um að ég væri búin að „fiffa“ bókhaldið með Deloitte í fjöldamörg ár þar sem hugbúnaðurinn var eignfærður. Mér finnst þessar aðgerðir gegn mér mjög grófar enda vita allir sem hafa farið í gegnum alþjóðlega endurskoðun að þetta eru fáránlegar ásakanir. Ég er ekki hafin yfir það að missa vinnuna en þarna er að baki löng saga og án þess að það hafi verið reynt að setjast niður og ná sáttum af einlægni,“ segir Brynja og bætir við að hún skrifi nú bók og kvikmyndahandrit um starfsferil sinn hjá Azazo.

„Ég tel þetta ósanngjarnt og ekki einungis gegn mér heldur öllum hluthöfum. Það hefur fullt af starfsmönnum sett peninga í hlutafé sem eiga nú á hættu að missa það ef félagið fer í þrot eða ef þeir þynnast út í skuldabréfaútgáfunni. Ég er stolt af Azazo, lausnum þess og starfsfólki. Ég vil að fyrirtækið lifi þessar hremmingar af og haldi áfram að blómstra.“

Brynja segir að persónuverndarlög hafi einnig verið brotin þar sem hún hafi ekki enn fengið einkagögn sem voru á skrifstofu hennar og vinnutölvu. Launakrafan upp á 65 milljónir eigi að fara í að borga þau lán sem hún tók til að stofna og halda rekstri fyrirtækisins gangandi.

„Í lok síðasta árs gerði ég skriflegt samkomulag við þáverandi stjórn þar sem hún ábyrgðist að losa mig undan ábyrgðum í síðasta lagi fyrir 1. september síðastliðinn. Ekki var staðið við þetta samkomulag og mun ég skoða réttarstöðu mína varðandi það og mögulega stefna fyrirtækinu og skoða það að sækja þessa stjórnarmenn beint til saka persónulega vegna þessa brots.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×