Innlent

Fangavörður sýknaður í máli sem fangi vissi ekki um hvað snerist

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið kom upp á Litla-Hrauni á Nýársdag.
Málið kom upp á Litla-Hrauni á Nýársdag. Vísir/Eyþór
Fangavörður á Litla-Hrauni hefur verið sýknaður af ákæru um líkamsárás og broti í opinberu starfi. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands í dag en fangaverðinum var gefið að sök að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða er hann hugðist slökkva eld í fangaklefa. Sprautaði hann úr léttvatnsslökkvitæki í andlit og bringu fangans í um þrjár sekúndur.

Atvikið átti sér stað á nýársdag en það var ekki fyrr en 17. mars sem Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsisins, var upplýstur um atvikið af starfsmanni fangelsisins. Var honum bent á að kynna sér myndbandsupptöku úr klefanum og kom í ljós að ekki hafði verið minnst á atvikið í skýrslu lögreglu.

Höfðu fjórir fangaverðir réttarstöðu sakbornings um tíma, þrír vegna gruns um að hafa hylmt yfir með kollega sínum og sá fjórði fyrir að hafa sprautað.

Faldi kveikjara í endaþarmi

Atburðarásin var á þann veg að fanginn hafði verið með mikil læti og tvívegis með skömmu millibili kveikt eld í klefum sem hann var vistaður í. Var að mati dómarans greinilegt að ásetningur hans var skýr en hann hafði falið kveikjara í endaþarmi sínum.

Fanginn kom fyrir dóm og skýrði svo frá að honum hefði verið sagt að komið hefði upp eldur en það hefði ekki verið af hans völdum. Hann gat ekkert frekar borið um málsatvik og virtist ekki hafa hugmynd um það um hvað mál þetta snerist.

Fangaverðinum var rétt og skylt að fara inn í klefann með slökkvitæki að mati dómarans. Ákærði viðurkenndi að hafa sprautað á fangann en útilokaði ekki að einhver glóð hefði verið á brotaþola. Annar fangavörður útilokaði heldur ekki að glóð hefði verið í fanganum.

Sjónlaus á öðru auga í reykfylltu herbergi

Hafi svo verið var það að meinalausu að sprauta á fangann að mati dómara. Þá er þess getið að fangavörðurinn hafði aðeins sjón á öðru auga þetta kvöld.

„Þegar tekið er tillit til þess að brotaþoli er staddur í litlu rými þegar hann kveikir eldinn verður að telja meiri líkur en minni að glóð geti borist í hann við þessar aðstæður. Með hliðsjón af öllu framansögðu og með hliðsjón af því að reykur og kóf var inni í klefanum og ákærði sjónlaus á vinstra auga verður að telja ósannað að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að meiða brotaþola.“

Var fangavörðurinn því sýknaður en allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn í heild má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×