Lífið

Ævintýralegt æskuheimili Game of Thrones-stjörnu til leigu á Airbnb

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ein nótt í Lickleyhead-kastalanum, æskuheimili Leslie í Aberdeen í Skotlandi, kostar 600 pund.
Ein nótt í Lickleyhead-kastalanum, æskuheimili Leslie í Aberdeen í Skotlandi, kostar 600 pund. Vísir/Getty/Airbnb
Leikkonan Rose Leslie, sem fór með hlutverk Ygritte í sjónvarpsþáttunum vinsælu Game of Thrones, er af aðalsættum og ólst upp í kastala í Skotlandi. Aðdáendur leikkonunnar geta nú tekið æskuheimili hennar á leigu í gegnum vefsíðuna Airbnb, að því er segir í frétt vefsíðunnar Mashable.

Ein nótt í Lickleyhead-kastalanum, æskuheimili Leslie í Aberdeen í Skotlandi, kostar 600 pund eða um 85 þúsund íslenskar krónur. Foreldrar leikkonunar, Sebastian Arbuthnot-Leslie og Candida Mary Sibyl Leslie, eru enn eigendur kastalans, sem byggður var á 15. öld, og standa að útleigunni.

Á Airbnb-síðu kastalans segir að gestir geti notið samverustunda í stórum borðsal og að hann henti vel fyrir brúðkaupsveislur. Í kastalanum eru sjö herbergi sem rúma samtals fjórtán manns en myndir af herlegheitunum er hægt að skoða hér.

Rose Leslie er þekktust fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Downtown Abbey og hinum fyrrnefndu Game of Thrones en hún fer nú með hlutverk Maiu Rindell í þáttaröðinni The Good Fight. Leslie trúlofaðist meðleikara sínum í Game of Thrones, Kit Harington, á dögunum en hann er einnig af aðalsættum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×