Innlent

Þolandi heimilisofbeldis fær ekki gjafsókn frá ríkissjóði

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Kristrún segir að málið hafi verið dómtekið en kostnaðinum verði velt yfir á konuna.
Kristrún segir að málið hafi verið dómtekið en kostnaðinum verði velt yfir á konuna. vísir/pjetur
Tveggja barna móðir sem höfðaði dómsmál til að fá lögskilnað frá eiginmanni sínum sem beitti hana ofbeldi fær ekki gjafsókn frá ríkinu. Maðurinn flúði land og hefur verið ákærður fyrir ítrekuð ofbeldisbrot. „Gjafsóknarnefnd gætir ekki jafnræðis,“ segir Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður konunnar.

„Þessi kona var í langvarandi ofbeldissambandi sem henni tókst að koma sér úr. Maðurinn hefur sætt þremur nálgunarbönnum og hefur brotið þau sextán sinnum. Það er evrópsk handtökuskipun á hann í gildi. Konan hefur notið aðstoðar lögreglu vegna málsins en svo mætir hún mótlæti kerfisins þarna,“ segir Kristrún Elsa og ítrekar erfiða félagslega stöðu konunnar. „Hún er í dag einstæð tveggja barna móðir og býr í leiguhúsnæði. Eina leiðin fyrir hana til að fá skilnað var að höfða dómsmál vegna flótta mannsins úr landi. Kostnaðurinn lendir allur á henni,“ segir Kristrún Elsa sem segist áður hafa fengið samþykkta gjafsókn í sambærilegum málum. Bæði í skilnaðar- og í forsjármálum þar sem tekjur eru yfir viðmiði. Við í lögmannastétt höfum oftsinnis gagnrýnt störf nefndarinnar og mat hennar.“

Þegar sótt er um gjafsókn á grundvelli efnahags er almennt miðað við að tekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals tveimur milljónum króna.

Kristrún Elsa Harðardóttir héraðsdómslögmaður
Reglur um gjafsókn eru hins vegar sveigjanlegar að þessu leyti því tekið er fram að það megi veita einstaklingi gjafsókn þótt tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum í vissum tilvikum. Félagsleg staða umsækjenda og aðstæður eru einnig metnar. Til dæmis þegar umsækjandi á ekki íbúðarhúsnæði eins og umrædd kona og leigukostnaður er verulegur. Einnig þegar framfærslukostnaður er hár eins og er í hennar tilfelli með tvö börn á framfæri. Einnig má víkja frá tekjuviðmiði þegar málskostnaður verður fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjanda.

Kristrún nefnir að helsta gagnrýni lögmanna felist í því að löggjafinn þurfi að fara yfir og ákveða í hvaða málaflokkum sé tilefni til að veita gjafsókn án tekjutengingar.

Ýmsir gætu sagt að lögmenn hafi beina hagsmuni af því að gjafsóknir verði fleiri án tekjutengingar. Kristrún Elsa segir það af og frá. „Það er skelfilegt ef þröngar gjafsóknarreglur og synjanir nefndarinnar valda því að konur losna ekki við ofbeldismanninn úr lífi sínu. Borgarar verða að njóta jafnræðis fyrir lögum. Ég hef áður fengið gjafsókn þegar tekjur eru hærri og skjólstæðingur minn ekki í jafn vondri stöðu. Þá hef ég einnig fengið gjafsókn í forsjármálum. Þetta er ótækt. Mér finnst afar mikilvægt að konur sem hafa ef til vill barist árum saman séu ekki stöðvaðar þarna. 

Þessi kona stóð sig vel, hún kom sér út úr ofbeldissambandinu, var í góðu sambandi við lögreglu. Þá hefur hún unnið börnum sínum farborða og er refsað fyrir það. Mál hennar hefur verið dómtekið og líklegt að hún fái lögskilnað og fulla forsjá barna sinna. En nú veltir kerfið afleiðingunum, kostnaðinum, á hana.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×