Viðskipti innlent

Kröfur í málmbræðslu nema 3,6 milljörðum

Haraldur Guðmundsson skrifar
GMR hóf rekstur á Grundartanga árið 2013.
GMR hóf rekstur á Grundartanga árið 2013. vísir/eyþór
Kröfur í þrotabú málmbræðslu GMR á Grundartanga nema 3,6 milljörðum króna og á Landsbankinn þar af rúma tvo milljarða undir. Skiptastjóri búsins hefur reynt að selja verksmiðjuna síðan í vor og hafa bæði innlendir og erlendir fjárfestar sýnt henni áhuga.

„Ég er að reyna að selja verksmiðjuna og fyrr en það gerist mun skiptum ekki ljúka. Það hafa nokkrir aðilar sýnt henni áhuga, bæði íslenskur hópur fjárfesta, sem reyndar gerði tilboð í vor en því var hafnað enda þótti það of lágt. Síðan hef ég átt símafundi með bæði amerísku fyrirtæki og öðru evrópsku sem er staðsett í Bretlandi. Að lokum hefur eigandi fyrirtækis sem er staðsett í Sviss og er í stálviðskiptum kynnt sér hana,“ segir Marteinn Másson, lögmaður og skiptastjóri þrotabúsins.

GMR Endurvinnslan hóf rekstur á Grundartanga árið 2013 en var lýst gjaldþrota í lok janúar. Fyrirtækið endurvann brotamálma, meðal annars stál sem féll til við rekstur álvera hér á landi. Verksmiðjan, áhöld hennar og tæki voru í árslok 2014 metin á 2,2 milljarða króna, samkvæmt nýjasta ársreikningi GMR sem er í evrum, miðað við þáverandi gengi. Lán frá Landsbankanum námu þá 2,6 milljörðum króna. Samkvæmt lánasamningum við ríkisbankann voru hvorki greiddir vextir né afborganir árið 2015 og áttu fyrstu greiðslur að hefjast í júní í fyrra.

Almennar kröfur í búið nema 290 milljónum króna. Þar af á íslenska ríkið átta milljóna kröfu vegna fjárfestingarsamnings sem það gerði við GMR árið 2012. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, komst að þeirri niðurstöðu, sem EFTA-dómstóllinn staðfesti síðar, að samningurinn hefði falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Ekki var búið að endurheimta hana þegar verksmiðjan fór í þrot, en Marteinn segir ólíklegt að almennar kröfur í búið fáist greiddar.

Á þeim þremur árum sem málmbræðslan var rekin skráði Umhverfisstofnun á þriðja tug frávika frá starfsleyfi fyrirtækisins. Sætti það auknu eftirliti vegna ítrekaðra vanefnda við að koma mengunarvörnum í viðunandi horf og fyrir að geyma spilliefni óvarin á lóðinni.

„Umhverfisstofnun var með ákveðnar kröfur og þær verða teknar upp þegar og ef nýr rekstraraðili kemur. Ég er með starfsmann fyrir þrotabúið sem er að vinna á svæðinu og vaktar verksmiðjuna og heldur tækjabúnaði í lagi. Hann hefur verið að taka til á svæðinu. Við höfum einnig látið flytja inn í húsið spilliefni sem voru á lóðinni,“ segir skiptastjórinn.

Eyþór Arnalds, fjárfestir og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, var í eigendahópi GMR í árslok 2014 og stjórnarformaður félagsins þangað til í apríl í fyrra. Þá voru einnig í hluthafahópnum félög í eigu þeirra Stefáns Arnars Þórissonar, fyrrverandi stjórnarmanns GMR, og Arthurs Garðars Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×