Erlent

Vinsældir It blása nýju lífi í trúðahrekki

Birgir Olgeirsson skrifar
Bill Skarsgård í hlutverki trúðsins í hrollvekjunni It.
Bill Skarsgård í hlutverki trúðsins í hrollvekjunni It. Youtube.
Hrollvekjan It hefur slegið rækilega í gegn í kvikmyndahúsum og hefur haft þau áhrif að ærslabelgir hafa ákveðið að klæða sig upp sem ógnvænlega trúða og hræða þannig grunlausa einstaklinga.

Kvikmyndin It, sem er eftir káldsögu bandaríska rithöfundarins Stephen King, þénaði 123 milljónir dollara í miðasölu kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum um liðna helgi. Myndin segir frá vinahópi sem þarf að kljást við djöful sem hefur tekið sér ásýnd trúðs og herjar á börn.

Myndin hefur haft þau áhrif á Ástralíu að fjölmargar Facebook-síður, tileinkaðar trúðahrekkjum, hafa sprottið upp.

Greint er frá þessu á vef The Sidney Morning Herald en þar segir frá loforði þeirra sem sett hafa þessar síður upp um að skelfa þúsundir íbúa í trúðsgervi í borgunum Melbourne og Sidney.

„Á laugardag munum við senda út tíu trúða á mismunandi svæði. Við erum ekki hér til að meiða, aðeins til að hlæja og skemmta okkur,“ er skrifað á eina síðuna.

Í nóvember í fyrra var greint frá því á Vísi að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði til skoðunar trúðafaraldur í Grafarvogi. Þar höfðu íbúar kvartað undan manneskjum í trúðsgervi sem gerðu sér það að leik að hrella grunlaust fólk með því að banka á glugga á húsum í kolniðamyrkri.

Þetta átti sér rót í trúðaæði sem gekk yfir heiminn í nokkra mánuði í fyrra.

Í október í fyrra höfðu slíkar tilkynningar borist úr nánast öllum ríkjum Bandaríkjanna, Ástralíu, Bretlandi, Brasilíu, Chile, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Króatíu, Finnlandi, Þýskalandi, Írlandi, Mexíkó, Nýja Sjálandi, Hollandi, Singapúr, Spáni, Sviss.

Ekki er að sjá á fréttaflutningi erlendis frá að kvikmyndin It sé að endurvekja þetta æði í bili, en myndin sló fjöld meta í Bandaríkjunum um liðna helgi.

Um var að ræða stærstu frumsýningarhelgi í september, stærstu haustfrumsýninguna, stærstu hrollvekjufrumsýninguna, stærstu frumsýninguna á kvikmynd sem byggð er á skáldsögu Stephen King og næst stærsta frumsýning á kvikmynd sem er stranglega bönnuð börnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×