Enski boltinn

De Gea vill jólafrí í ensku deildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Spánverjinn de Gea er talinn einn af betri markvörðum heims.
Spánverjinn de Gea er talinn einn af betri markvörðum heims. Vísir/Getty

Manchester United hefur leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld eftir tæpa tveggja ára fjarveru þegar liðið tekur á móti Basel á Old Trafford.

David de Gea, markvörður United, sagði á blaðamannafundi fyrir leik kvöldsins að enska úrvalsdeildin ætti að gera hlé yfir veturinn til þess að ensku liðin ættu meiri möguleika í Meistaradeildinni.

„Það eru mjög sterk lið á Englandi, og mjög sterk lið á Spáni. En það er satt að á Englandi er aldrei gert hlé á deildinni, desember og janúar eru erfiðir fyrir ensk lið og við spilum marga leiki. Það er erfitt að vera tilbúinn í leikina í Meistaradeildinni.“

„Spænsku liðin eru góð núna, en liðin á Englandi, sérstaklega Manchester United, eru með bestu liðum heims,“ sagði David de Gea.

Miðvikudaginn 20. desember er síðasta umferð ársins spiluð í spænsku úrvalsdeildinni, La Liga, að undanskildum færðum leik Real Madrid og Barcelona sem fram fer á Þorláksmessu. Næsta umferð deildarinnar er svo spiluð 7. janúar, og því líða 18 dagar á milli leikja yfir jól og áramót.

Á sama tíma eru spilaðar fjórar umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Heil umferð á Þorláksmessu, annan í jólum, 30. desember og Nýársdag.

Leikur Manchester United og Basel verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst upphitun klukkan 18:15.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira