Viðskipti innlent

Frá því að vera stöðugasta mynt heims í eina þá óstöðugustu á fáum mánuðum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Friðrik Már Baldursson, efnahagsráðgjafi GAMMA
Friðrik Már Baldursson, efnahagsráðgjafi GAMMA

Á aðeins fáeinum mánuðum hefur krónan farið frá því að vera stöðugasta mynt heims í eina þá óstöðugustu, að sögn Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði og efnahagsráðgjafa GAMMA.

Hann segir að líta þurfi til gjaldmiðla þróunarríkja til þess að finna viðlíka sveiflur og hafa verið á gengi krónunnar eftir að losað var um fjármagnshöftin í mars síðastliðnum. Æskilegra væri ef gjaldeyrismarkaðurinn færðist hraðar í átt að eðlilegra ástandi.

Friðrik Már fjallaði um gengisþróun krónunnar á málstofu sem GAMMA stóð fyrir í Tjarnarbíó síðdegis í gær.

Hann segir í samtali við Markaðinn að það hafi ekki átt að koma á óvart að flökt krónunnar ykist við afnám hafta. „Þegar opnað var fyrir fjármagnsviðskipti fóru þau að verða ráðandi í skammtímasveiflum á genginu. Gjaldeyrismarkaðir eru almennt mun kvikari en vöru- og þjónustumarkaðir.

Þó svo að við séum með viðskiptaafgang sem styður við gengið skiptir það ekki máli til skemmri tíma því fjármagnshreyfingar virðast hafa meiri áhrif á gengissveiflurnar heldur en gjaldeyrisinnflæði sem stafar af vöru- og þjónustuviðskiptum,“ segir hann.

Hann bendir meðal annars á að sveiflur á gengi krónunnar hafi undanfarið verið þrisvar til fjórum sinnum meiri en til dæmis á gengi sænsku krónunnar. Sveiflurnar komi ekki á óvart í ljósi þess hve lítil velta sé á millibankamarkaði með gjaldeyri.

„Hér er velta á millibankamarkaði um helmingur af utanríkisviðskiptum en í öðrum saman­burðarlöndum eru viðskipti á gjaldeyrismarkaði margfalt meiri en utanríkisviðskipti. Þetta þýðir að hér geta tiltölulega litlar fjármagnshreyfingar haft mikil áhrif á gengið þannig að það sveiflist um allt að þrjú til fjögur prósent á einum degi. Slíkar sveiflur eru mjög óheppilegar og skapa mikla óvissu.“

Friðrik Már segir það stinga í augun hve mikið Íslendingar fjárfesta hér á landi og lítið erlendis og eins hve lítið sé um erlendar fjárfestingar hér á landi. „Það væri mjög æskilegt, ekki einungis til þess að efla gjaldeyrismarkaðinn og draga úr sveiflum á honum, heldur einnig til þess að ná fram betri áhættudreifingu fyrir þjóðar­búið, að það næðist betra jafnvægi þarna á milli. Til lengri tíma litið væri ákjósanlegt að aflétta öllum höftum, einnig á innflæði fjármagns, og styrkja þannig tengsl markaðarins hér við erlenda markaði.“

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
LEQ
0,73
1
115.500
ARION
0,12
14
58.918
ORIGO
0
2
2.368
EIM
0
4
32.149

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
VIS
-3,22
8
54.361
HAGA
-2,03
5
144.301
SJOVA
-1,97
3
22.290
REGINN
-1,77
7
124.456
SYN
-1,3
2
54.760